Leigumiðlun á húsnæði í gegnum vefsíðuna Airbnb er víða farin að valda vandræðum á fasteignamarkaði. Ástæðan er sú að fjölmargar íbúðir, einkum miðsvæðis í borgum, hverfa af markaði sem heilsárs búsetu eignir, og eru þess í stað notaðar sem leiguhúsnæði fyrir ferðamenn til skamms tíma. Þróunin hefur verið hröð, og hafa borgir víða um heim nú gripið til aðgerða til þess að sporna við neikvæðum áhrifum, sem eru einkum mikil hækkun fasteignaverðs þar sem framboð af eignum til langtímabúsetu minnkar á meðan eftirspurnin eykst stöðugt.
Í umfjöllun Lauren Comiteau, blaðamanns breska ríkisútvarpsins BBC, rekur hún hvernig útleiga á húsnæði hennar í Amsterdam skipti sköpum fyrir hana sjálfa. Hún gat náð sér í umtalsverða fjármuni með því að leigja íbúðina út í skamms tíma, dætrum hennar til ama, þar sem þær þurftu að yfirgefa íbúðina þegar hún var leigð út. Amsterdam var með fyrstu borgum í Evrópu til að búa til regluverk, sem takmarkaði möguleika til útleigu í gegnum Airbnb við 60 daga á ári og aðeins til fjögurra einstaklinga að hámarki. Það var árið 2014 en margar borgir hafa fylgt í kjölfarið, og enn fleiri, bæði í Bandaríkjunum og Asíu, er með regluverkið í sífelldri endurskoðun og hafa borist fregnir af því að mögulega verði útleiga á íbúðum verulega takmörkuð eða jafnvel bönnuð, frá og með næsta ári, í mörgum borgum Bandaríkjanna.
Comiteau vitnar meðal annars til Reykjavíkur, og segir að þar hafi margir þurft að yfirgefa íbúðir sínar þar sem eigendur sjái mikil gróðatækifæri í því að leigja þær til skamms tíma til ferðamanna.
Skapar vandamál
Borgaryfirvöld í Berlín hafa þegar gripið til aðgerða vegna Airbnb og hafa einfaldlega bannað útleigu á íbúðum í gegnum vefsíðuna, á ákveðnum svæðum í borginni, einkum miðsvæðis. Rökin fyrir þeirri ákvörðun eru þau, að umfang útleigu á íbúðum hafi verið orðið svo mikið að það var farið að hafa neikvæð áhrif á fasteignamarkað og tekið út þúsundir íbúða fyrir heilsársíbúa, bæði leigjendur og kaupendur. Þá hafi kvartanir frá fólki sem býr í grennd við íbúðir sem hafa verið leigðar til ferðamanna verðir algengar. Í grunninn var þetta líka spurning um skipulagsmál, þar sem íbúðahverfi í miðborginni eru skipulögð sem heils árs búsetusvæði fyrir fólk jafnvel í grennd við blómlegt atvinnulíf og skóla. Útleiga á íbúðum til ferðamanna á þessum svæðum fer illa saman við þessar áherslur.
Ísland er vinsælt hjá Airbnb
Ísland er feykilega vinsælt á vef Airbnb. Á höfuðborgarsvæðinu eru tæplega þrjú þúsund íbúðir til útleigu, og eru þær langflestar miðsvæðis í Reykjavík. Þetta hefur þegar skapað vandamál þar sem íbúðir hafa horfið af markaði til heils árs búsetu, en ný löggjöf, sem takmarkar útleigu við 90 daga á ári, á að vinna gegn neikvæðum áhrifum. Löggjöfin kemur hins vegar seint þar sem stöðugur vöxtur hefur verið í þessari skammtímaleigu undanfarin fimm ár.
Á landsbyggðinni er svipaða sögu að segja, en víða um landið eru íbúðir til leigu fyrir ferðamenn til skamms tíma. Sem dæmi eru tæplega 80 íbúðir og herbergi til leigu á Húsavík og í nágrannasveitum, en þar fara um 80 þúsund manns í hvalaskoðun yfir sumarmánuðina.
Heildaryfirleit um fjölda íbúða á vef Airbnb, sem eru til leigu á Íslandi, liggur þó ekki fyrir og er ekki gefið upp á vefnum. Ljóst er þó að íbúðirnar eru í það minnsta vel á fjórða þúsund um allt land.
Airbnb var stofnað árið 2008 en hefur vaxið hratt, og er félagið nú metið á um 25 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um þrjú þúsund milljarða króna.