Á sérstökum vef sem frelsisstofnun í Bandaríkjunum (The Liberty Foundation) heldur úti er minnst á að Alþingi komi saman í dag, 15. ágúst, og sagt að Ísland standi nú á tímamótum, þar sem það velur að fara í átt að meira efnahagslegu frelsi eða höftum og minna efnahagslegu frelsi.
Á vefnum, sem ber heitið Íslandsvakt (Iceland Watch) er sérstaklega tekið fram að nú standi yfir vinna við að afnema fjármagnshöft og beinir vefur spjótum sínum að hagsmunum aflandskrónueigenda. Er sérstaklega vikið að stöðu aflandskrónueigenda í þessu samhengi, en eins og kunnugt er tóku stórir eigendur aflandskrónueigenda, af um 320 milljarða heildarstærð, ekki þátt í aflandskrónuútboði Seðlabanka Íslands þar sem þeir sættu sig ekki við skilmála stjórnvalda og seðlabankans. Að þessu leyti er sú hagsmunagæsla sem talað er fyrir alveg grímulaus og ekki reynt að fela það með nemum hætti fyrir hverju er talað á vefnum.
Ekki þátttaka
Seðlabanki Íslands hélt tvö aflandskrónuútboð í júní þar sem eigendum aflandskróna bauðst að skipta þeim yfir í evrur gegn afslætti. Fjöldi bandarískra sjóða sem eiga slíkar ákvað að taka ekki þátt í útboðunum tveimur, en í því síðara bauðst bankinn til að kaupa krónur þeirra fyrir 190 krónur á hverja evru. Fjárhæð samþykktra tilboða í báðum útboðunum var 83 milljarðar króna og hækkaði um fimm milljarða króna milli útboða. Alls voru 188 milljarðar króna boðnir í útboðinu en heildarumfang aflandskrónuvandans var fyrir það um 319 milljarðar króna.
Sjóðir eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance Management voru á meðal þeirra sem tóku ekki þátt í útboðunum og það sama á við um sjóðinn Autonomy Capital LP, en ríflega 30 prósent af aflandskrónuhengjunni var í eigu þessara sjóða.
Kaupa í félögum hér
Sjóðir í stýringu Eaton Vance hafa á síðustu vikum og mánuðum keypt hlutabréf í mörgum af þekktustu skráðu fyrirtækjum Íslands. Nú er svo komið að tveir sjóðir á vegum þess - Global Macro Portfolio og Global Macro Absolute Return Advantage - eru samanlagt komnir í hóp tíu stærstu hluthafa Eimskipa og Reita fasteignafélags. Þá er annar sjóðurinn einnig kominn á lista yfir 20 stærstu hluthafa Haga, stærsta smásölufyrirtækis á Íslandi. Þá hafa sjóðirnir eignast 1,7 prósent hlut í HB Granda, eina skráða sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Frá þessu er greint í DV í síðustu viku. Þar segir að samanlagt virði eignarhluta sjóðanna í þessum fjórum fyrirtækjum sé vel á fimmta milljarð króna.
Lagalegar deilur
Sjóðirnir ákváðu strax 23. maí, þegar lagafrumvarp um losun á fjármagnshöftum var kynnt, að vísa því til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, þar sem þeir töldu aðgerðirnar fela í sér eignaupptöku og brot gegnum ákvæðum laga um jafnræði. Sú afstaða lá raunar fyrir í umsögn sem fór fyrir Alþingi.
Þrátt fyrir mótmæli þeirra, varð frumvarpið að lögum og hafa stjórnvöld, ráðgjafar og sérfræðingar Seðlabanka Íslands unnið hörðum höndum að því að stíga síðasta skrefið.
Sjóðirnir segjast ætla að láta reyna á rétt sinn, og sést vel á skrifunum á Íslandsvaktinni að hagsmunirnir eru metnir miklir. Nú sé umheimurinn að fylgjast með því hvernig þróun mála verður á Íslandi, og að þessi aðgerð – afnám hafta – muni segja til um hvort stjórnmálamenn á Íslandi ætli sér að feta leið „frelsis“ í viðskiptum eða marka brautina til framtíðar með aðgerðum sem geti dregið úr erlendri fjárfestingu og hagvexti.