Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafa boðað til fréttamannafundar í Hörpu klukkan 13 í dag. Þar verða kynnt úrræði fyrir nýja kaupendur á húsnæðismarkaði, samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Búist er við því að ríkisstjórnin muni leggja fram frumvarp sem takmarki veitingu verðtryggðra húsnæðislána í þessari viku. Sigurður Ingi sagði í þættinum Þjóðbraut um helgina að 40 ára jafngreiðslulán til húsnæðiskaupa muni heyra sögunni til verði frumvarpið samþykkt. Þau lán eru vinsælustu lán sem Íslendingar taka. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur reiknað út að um 40 prósent þeirra sem taka slík lán standist ekki greiðslumat fyrir annars konar lánum. Aðgerðirnar sem kynntar verða í dag snúast því að öllum líkindum um hvernig komið verði til móts við þann hóp þegar hann getur ekki tekið 40 ára jafngreiðslulánin lengur.
Sigurður Ingi sagði á Þjóðbraut að hvatar verði settir fram til þess að bjóða upp á óverðtryggð lán og það verði á einhvern hátt samtvinnað við séreignasparnað fólks. Þá verði komið „myndarlega til móts við kaupendur á fyrstu fasteign.“ Spurður hvort um verði að ræða framlag úr ríkissjóði sagði Sigurður Ingi svo ekki vera. Þó verði um að ræða að stórar breytingar á lánaformi sem bjóðast við íbúðarkaup, en breytingarnar eigi þó ekki við um lán sem fyrir eru.