Stefnt er að því að leggja fram þingsályktunartillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um framtíð Reykjavíkurflugvallar á allar næstu dögum. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að hún sé í lokavinnslu en hann býst fastlega við því að vera á meðal flutningsmanna tillögunar. Ekki liggur fyrir hverjir aðrir muni verða flutningsmenn hennar en talið er líklegt að Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar sem hættir á þingi eftir komandi kosningar, verði fyrsti flutningsmaður hennar. Engin þingmaður Bjartrar framtíðar né Pírata stendur að tillögunni. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þar er rætt við Þorstein sem segist efast um að hægt verði að kjósa um framtíð flugvallarins samhliða komandi þingkosningum, þótt það væri æskilegt. Hann segir þverpólitískan vilja til að setja það í þjóðaratkvæði hvort að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýri.
Var kosið ráðgefandi árið 2001
Lengi hefur verið vilji fyrir því hjá Reykjavíkurborg að loka flugvellinum og nýta landið í Vatnsmýrinni undir framtíðaruppbyggingu borgarinnar. Árið 2001 kusu borgarbúar í ráðgefandi atkvæðagreiðslu um hvort flugvöllurinn ætti að vera í Vatnsmýrinni eftir árið 2016. Niðurstaða þeirrar kosningar var að alls vildu 50,6 prósent þeirra sem tóku afstöðu að hann myndi fara en 49.4 prósent að hann yrði áfram.
Niðurstaðan var hins vegar ekki bindandi þar sem borgarstjórn hafði sett skilyrði um þátttöku að minnsta kosti helmings kosningabærra manna til að svo yrði. Kjörsókn var hins vegar 37,1 prósent.
Í október 2013 undirrituðu fulltrúar ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group samkomulag um innanlandsflug. Samkomulagið var undirritað af Jóni Gnarr, þá borgarstjóri Reykjavíkur, Hanna Birna Kristjánsdóttir, þá innanríkisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra og Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. Samkvæmt því var samþykkt að ljúka vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrirReykjavíkurflugvöll og ákveðið að hann yrði á slíku til 2022 í stað 2016. Í millitíðinni átti að vinna skýrslu um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugvallar, en hún var unnin af Rögnunefndinni svokölluðu. Skýrslu hennar var skilað í fyrra og niðurstaða nefndarinnar leysti ekki deilur um framtíð Reykjavíkurflugvallar á nokkurn hátt. Ákvörðun á grundvelli tillagna hennar liggur enn ekki fyrir. Þó hefur Icelandair Group greint frá því að félagið hyggi á tilraunaflug í Hvassahrauni til að kanna betur fýsileika staðsetningarinnar.
Hæstiréttur lætur loka neyðarbraut
Stórt skref í átt að lokun Reykjavíkurflugvallar var stigið með dómi Hæstaréttar í júní síðastliðnum, þegar hann komst að þeirri niðurstöðu að ríkið þyrfti að standa við samkomulag sitt við Reykjavíkurborg um að loka norðaustur/suðvestur-flugbrautinni, sem stundum er kölluð neyðarbrautin, á Reykjarvíkurflugvelli innan 16 vikna.
Lokun brautarinnar hefur staðið til árum saman. Árið 2005 undirrituðu þáverandi borgarstjóri Steinunn Valdís Óskarsdóttir og þáverandi samgönguráðherra Sturla Böðvarsson samkomulag um samgöngumiðstöð sem rísa skyldi í Vatnsmýrinni. Hún átti að rísa þar sem braut 06/24 er. Árið 2009 undirrituðu Kristján L. Möller, þáverandi samgönguráðherra, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, samkomulag um að brautin ætti að loka, en þó var sá fyrirvari á því samkomulagi að það myndi rísa samgöngumiðstöð við enda brautar 06/24.
Framsóknarmenn vilja taka skipulagsvald af borginni
Þingmenn og borgarfulltrúar Framsóknarflokksins hafa lengi barist fyrir veru flugvallarins í Vatnsmýrinni. Fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar var framboði flokksins breytt í framboð Framsóknar og flugvallarvina skömmu fyrir kosningar, þegar fylgi þess mældist afleitt.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, tilkynnti í sumar að hann ætli að leggja fram frumvarp á Alþingi þegar það kemur saman aftur sem mundi koma í veg fyrir að norðaustur/suðvestur-flugbrautinni verði lokað.
Hann hefur einnig lagt fram frumvörp sem fela í sér að skipulagsvald sé tekið af Reykjavíkurborg á Reykjavíkurflugvelli og fært til ríkisins. Þau hafa ekki hlotið brautargengi.