Fyrirhugað afnám hafta breytir stöðu mála hér á landi, og opnar á víðtækari fjármálaþjónustu bæði hér á landi og erlendis. Almenningur getur brátt farið að stunda viðskipti með hlutabréf erlendis í einkabankanum, en bankarnir vinna nú að því að undirbúa sig fyrir lagabreytingar sem opna fyrir frekari gjaldeyrisviðskipti.
Burt með flugmiðana
Almenningur mun fá að fjárfesta fyrir allt að 100 milljónir króna erlendis í kjölfar þess.
Þótt að í boðuðum breytingum á höftunum felist aukið frelsi til fjármagnshreyfingu til og frá landinu þá verða höft ekki afnumin. Enn verða takmarkanir og Seðlabanki Íslands mun áfram hafa ýmis tól til inngrips telji hann þess þurfa.
Strax við gildistöku laganna mun bein erlend fjárfesting innlendra aðila verða ótakmörkuð en áfram háð staðfestingu Seðlabanka Íslands. Fjárfesting í fjármálagerningum upp að ákveðinni upphæð verður að mestu frjáls og einstaklingar mega kaupa sér eina fasteign á ári erlendis sem má kosta hvað sem er. Þá verður dregið úr skilaskyldu innlendra aðila á erlendum gjaldeyri og hún afnumin vegna lántöku einstaklinga hjá erlendum aðilum vegna kaupa á fasteign, farartæki eða fjárfestinga erlendis. Þá munu Íslendingar sem hyggja á ferðalög erlendis ekki lengur þurfa að framvísa flugmiða til að geta keypt gjaldeyri í banka.
Nýlegar fréttir af aukinni starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis, sýna enn fremur að losun hafta fylgja tækifæri. GAMMA fékk nýverið starfsleyfi í Bretlandi, og sagði Gísli Hauksson, forstjóri og stofnandi, að fyrirtækið vildi styrkja þjónustuna og nýta tækifærin sem fylgja losun hafta.
Þá tilkynnti verðbréfafyrirtækið Fossar markaðir hf. að það hefði opnað skrifstofu í Stokkhólmi og ráðið Andra Guðmundsson til að leiða uppbyggingu félagsins á Norðurlöndum. Fossar markaðir hóf starfsemi fyrir ári síðan á innlendum markaði og er leiðandi í þjónustu við erlenda aðila á Íslandi.
„Við sjáum mikil tækifæri í því að hefja starfsemi utan Íslands á þessum tímapunkti. Stór skref í afnámi hafta eru handan við hornið og Ísland verður virkari þátttakandi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum,“ segir Haraldur I. Þórðarson framkvæmdastjóri félagsins, Andri Guðmundsson verður starfandi fyrir Fossa í Svíþjóð. „Í Stokkhólmi munum við sinna bæði erlendum fjárfestum sem hyggja á fjárfestingar á Íslandi og íslenskum fjárfestum og fyrirtækjum sem hafa hug á að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem fylgja afnámi hafta,“ segir Andri Guðmundsson sem er búsettur í Svíþjóð og hefur verið í stjórn Fossa markaða á Íslandi.
Hvað gerist á hlutabréfamarkaði?
Forvitnilegt verður að fylgjast með því hver áhrifin verða á verðbréfamarkaði hér á landi, þegar opnað verður á fjárfestingu erlendis. Ekki er víst að lífeyrissjóðirnir stökkvi til og selja hlutabréf í innlendum hlutabréfum, en rýmkaðar heimildir til fjárfestinga erlendis gætu minnkað kaupþrýsting í skráðum félögum, og þannig dregið úr eftirspurn eftir hlutabréfum.
Ótímabært er þó að fullyrða nokkuð um slíkt, enda erfitt að sjá fyrir hvernig fjárfestar hegða sínum fjárfestingum á tímum breytinga. Losun hafta gæti opnað fyrir fjárfestingar frá erlendum sjóðum, sem hafa ekki haft heimildir til að fjárfesta í ríkjum sem eru með fjármagnshöft.