Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ástæðu til að velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að treysta betur umgjörð fjölmiðla á landinu með breytingum á lagaumhverfi og jafnvel skattaumhverfi þeirra. Þetta kom fram í svari Bjarna við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, á þingi í morgun.
Katrín spurði Bjarna þar út í ummæli sem hann viðhafði um fjölmiðla á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Eins og Kjarninn greindi frá í morgun sagði Bjarni það undrunarefni hve margir fjölmiðlar á Íslandi virðist starfa án nokkurrar sjáanlegrar ritstjórnarstefnu. „Hún gerist æ sterkari tilfinningin að vegna manneklu og fjárskorts séu viðkomandi miðlar orðnir lítið annað en skel, umgjörð um starfsemi þar sem hver fer fram á eigin forsendum. Engin stefna, markmið eða skilaboð og þar með nánast enginn tilgangur, annar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna. Þeir skiptast síðan á að grípa gjallarhornið sem fjölmiðillinn er orðinn fyrir þá og dæla út skoðunum yfir samfélagið. Ein í dag - önnur á morgun. Borið út frítt. Hvers vegna ekki bara að opna Facebooksíðu og leyfa öllum að skrifa á vegginn?“ skrifaði Bjarni.
„Þetta eru ansi þung orð hjá formanni stærsta stjórnmálaflokks landsins, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem fjölmiðlar á Íslandi og annars staðar í hinum vestræna heimi eiga í á tímum tæknibreytinga og samfélagsmiðla, þar sem tekjustofnar hefðbundinna fjölmiðla að þjóna sínu hlutverki sem er að þjóna almenningi og gera almenningi ljóst, að gera grein á staðfestum upplýsingum og öðru því efni sem flýtur um samfélagsmiðla, til dæmis frá okkur stjórnmálamönnum sem öll höldum úti okkar Facebook-síðum,“ sagði Katrín í morgun. Hún sagði ábyrgð fylgja orðum, ekki síst í ljósi þess að Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem er ekki á topp tíu lista yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum.
Bjarni sagði alveg ástæðu til að velta því fyrir sér „hvort það kunni ekki að vera svo komið út af tæknibreytingum og öðru sem að hefur gert rekstur fjölmiðlafyrirtækja í landinu, hefur gert þeim erfitt fyrir fjölmiðlafyrirtækjunum að spyrja sig hvort það sé eitthvað í ytri umgjörðinni, í lagaumhverfinu, skattaumhverfinu jafnvel, sem við getum gert til að treysta betur umgjörð fjölmiðla á landinu og þar með þann mikilvæga tilgang sem fjölmiðlar hafa.“ Hann sagði að honum væri samt fyrirmunað að skilja hvers vegna Katrínu væri svo mikið niðri fyrir út af „einni léttri Facebook-færslu.“ Hann hafi einfaldlega verið að velta því upp að honum þætti skorta skýra ritstjórnarstefnu á fjölmiðlum. Þetta væri bara hugrenning um stöðu fjölmiðla og „skort á öflugum, sterkum fjölmiðlum með skýr skilaboð þar sem er einhver þráður frá degi til dags.“
Katrín spurði þá hvaða aðgerðir væri hægt að ráðast í, og sagði það miklu fremur eiga að vera umræðuefnið. Ef fólk hefði áhyggjur af stöðu fjölmiðla væri hægt að ræða það með uppbyggilegum hætti. „Það er þessi ríkisstjórn sem jók hlut Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, þvert á stefnu sem hafði verið mörkuð á fyrra kjörtímabili.“ Bjarni viðraði þá skoðun sína að það ætti bara að vera ein pólitísk skoðun á hverjum fjölmiðli.
Þessu vísaði Bjarni á bug og sagði Katrínu vera að leggja sér orð í munn. „Menn geta alveg verið í fjölmiðlarekstri á Íslandi mín vegna og skipt um skoðun á hverjum degi og dælt út hvaða dellu sem er. Bara gjörið svo vel. Þá verður það mín upplifun á viðkomandi fjölmiðli að hann sé ekki markverður, sé ekkert mark á því takandi sem þaðan streymir,“ sagði hann.
Þá sagði hann þau Katrínu greinilega vera sammála um að fjölmiðlaumhverfið væri erfitt og þar væru miklir veikleikar. Það væri hans upplifun að fjölmiðlar á Íslandi ræktu ekki aðhaldshlutverk sitt.
Hér má sjá samskipti þeirra Katrínar og Bjarna um fjölmiðla.