Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra túlkar hjásetu Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðsimálaráðherra, við atkvæðagreiðslu um fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ekki sem vantraust á hann og Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Hann segir það rétt að óvanalegt sé að ráðherra styðji ekki svona mál en telur það ekki tengjast átökum innan Framsóknarflokksins. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Eygló sat hjá við atkvæðagreiðslu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017-2021 þegar hún fór fram fyrr í dag. Það gerði Þorsteinn Sæmundsson, samflokksmaður hennar, líka. Í stöðuuppfærslu á Facebook í dag sagði Eygló: „Á þessu kjörtímabili höfum við náð miklum árangri í stjórn efnahagsmála með því að lækka skuldir heimilanna og hækka laun fólks í samræmi við gildandi stjórnarsáttmála. Í fjármálastefnu og fjármálaáætlun fjármálaráðherra til áranna 2017 til 2021 er ekki hugað nægilega að lífeyrisþegum og barnafjölskyldum og hef ég sett alvarlega fyrirvara við þá forgangsröðun. Því sat ég hjá við atkvæðagreiðsluna.“
Mikil kergja er sögð innan Sjálfstæðisflokksins vegna afstöðu Eyglóar.