Aðalsteinn Kjartansson hefur verið ráðinn sem einn umsjónarmanna Morgunútvarps Rásar 2. Ásamt honum munu Sigmar Guðmundsson og Guðrún Sóley Gestsdóttir stýra þættinum í vetur.
Aðalsteinn hefur starfað lengi í fjölmiðlum. Hann starfaði á DV um fimm ára skeið og síðan á Vísi. Frá því í voru hefur Aðalsteinn starfað hjá Reykjavik Media ehf., fjölmiðlafyrirtæki í eigu Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, sem vann að rannsóknum og umfjöllun um hin svokölluðu Panamaskjöl. Hann hefur nú lokið störfum þar.
Í byrjun apríl fór í loftið Kastljósþáttur á RÚV sem unnin var í samstarfi við Reykjavík Media og innihélt umfjöllun um aflandsfélagaeignir íslenskra stjórnmálamanna. Þar var meðal annars að finna viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, þar sem hann var spurður út í aflandsfélagið Wintris. Umfjöllunin var unnin í samstarfi við ICIJ, alþjóð samtök rannsóknarblaðamanna, og ýmsa erlenda stórmiðla og vakti heimsathygli.
Reykjavik Media safnaði í kjölfarið fé til að fjármagna rekstur fyrirtækisins í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Karolina Fund og sló þar öll met. Alls safnaði fyrirtækið yfir 100 þúsund evrum, en markmið söfnunarinnar hafði verið að safna 40 þúsund evrum.