Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður fyrir Borgarahreyfinguna og svo Hreyfinguna, gefur kost á sér í fyrsta til annað sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Hún er með því annar einstaklingurinn sem býður sig fram í fyrsta sæti og sú þriðja til að bjóða sig fram í annað sætið í prófkjörinu.
Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og leiðtogi flokksins í kjördæminu, tilkynnti á miðvikudag að hann myndi áfram sækjast eftir því að leiða listann. Hann sagði það hafa skipt miklu máli að Katrín Júlíusdóttir og Magnús Orri Schram, sem skipuðu annað og þriðja sætið á listanum fyrir síðustu kosningar, ætli ekki að gefa kost á sér áfram. Því sé ljóst að endurnýjun verði mikil í efstu sætunum.
Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnarinnar, sækist einnig eftir öðru sæti í prófkjörinu. Hún tilkynnti það í morgun. Í gær tilkynnti Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og varaþingmaður, að hún sæktist eftir öðru sætinu.
Margrét Gauja og Sema Erla sóttust báðar eftir því að verða varaformenn Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í byrjun sumars. Þær lutu hins vegar báðar í lægra haldi fyrir Loga Einarssyni, arkitekt og bæjarfulltrúa á Akureyri, sem bauð sig fram á síðustu stundu og bar sigur úr býtum.