Þeir 20 einstaklingar sem skulda Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) hæstu fjárhæðirnar vegna námslána skulda sjóðnum 688,9 milljónir króna. LÍN býst við því að fá 91,9 milljónir króna til baka af skuld hópsins og hann hefur þegar greitt 18,7 milljónir króna. Það þýðir að styrkur sem fæst ekki endurgreiddur til þessarra 20 einstaklinga nemi tæplega 600 milljónum króna, eða um 30 milljónir króna á hvern að meðaltali. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu LÍN.
Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra LÍN, sem segir að þetta sé allt fólk í doktors- eða mastersnámi með menntun frá Bandaríkjunum eða Englandi, þar sem skólagjöld séu dýr. Alls séu 93 prósent lánþega með minna en tíu milljónir króna í lán frá sjóðnum.
Gífurlega umdeildar breytingar
Málefni LÍN eru mjög í umræðunni um þessar mundir þar sem Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, er mjög umhugað um að koma frumvarpi sínu um breytingar á lánafyrirkomulagi sjóðsins í gegn fyrir komandi haustkosningar.
Verði frumvarpið að lögum mun námslánafyrirkomulagi LÍN verða umbylt. Tekið verður upp styrkjakerfi (mánaðarlegur styrkur 65 þúsund krónur, viðbótarframfærsla er síðan lánshæf), lánshæfistími styttur og full framfærsla verður í boði. Á móti verða vextir námslána hækkaðir (fara úr einu í þrjú prósent), alls kyns þök sett á námslána- og námsstyrkjatöku, endurgreiðsluferlar styttir og eldra fólk og doktorsnemar munu ekki lengur fá styrki eða lán frá LÍN. Þá eiga breytingarnar að búa til sterka fjárhagslega hvata til að klára háskólanám sem allra fyrst.
Frumvarpinu hefur víða verið fagnað, sérstaklega þeirri breytingu að koma á föstum styrktargreiðslum til þeirra sem stunda háskólanám. Þannig hafa til dæmis stúdentaráð allra stærstu háskóla landsins lýst yfir ánægju með stærstu breytingar þess.
En það hefur líka verið gagnrýnt harðlega. Sú gagnrýni hefur sérstaklega snúið að þrennu. Í fyrsta lagi afnámi tekjutengingar á endurgreiðslum, sem er gerir endurgreiðslubyrði þeirra hópa sem hafa lág laun eftir nám mun þyngri. Í öðru lagi að vaxtahækkun á viðbótarframfærslu greiði upp styrkjakerfið að mestu. Því þurfi þeir sem þurfa að taka viðbótarlán að borga upp styrki hinna sem nægir að taka bara mánaðarlega styrkinn. Í þriðja lagi hefur verið gagnrýnt að nýja kerfið muni gera t.d. doktorsnemum og öðrum sem af einhverjum ástæðum taka lengri tíma en sjö ár í háskólanám nær ókleift að fá námslán síðustu námsárin.