Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), íhugar framboð fyrir Viðreisn. Þetta staðfestir hann við RÚV. Þorsteinn segir að forystumenn Viðreisnar hafi leitað til hans, hann sé að hugsa málið en sé ekki búinn að gera upp við sig hvort hann láti slag standa.
Í frétt RÚV er einnig sagt að Pawel Bartoszek stærðfræðingur hafi verið orðaður við framboð fyrir Viðreisn. Hann vildi hvorki játa né neita því. Pawel hefur áður starfað innan Sjálfstæðisflokksins og verið neðarlega á framboðslista hans í borgarstjórnarkosningunum 2010. Pawel sat einnig í stjórnlagaráði sem vann frumvarp að nýrri stjórnarskrá.
Viðreisn mun bjóða fram í fyrsta sinn í komandi haustkosningum, sem fyrirhugaðar eru 29. október næstkomandi. Framboðið hefur verið í undirbúningi frá árinu 2014 hið minnsta. Í nýjustu kosningaspá Kjarnans mælist fylgi flokksins 8,7 prósent, eða jafn mikið og fylgi Framsóknarflokks og Samfylkingar. Viðreisn ætlar að bjóða fram í öllum kjördæmum og áformar að skila inn framboðslistum um komandi mánaðarmót.