Þorsteinn Víglundsson hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA). Hann hefur ákveðið að gefa kost á sér í framboð til Alþingis fyrir Viðreisn. Frá þessu er greint á heimasíðu SA. Þar segir að Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri, muni stýra starfi samtakanna uns nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Þorsteinn var ráðinn framkvæmdastjóri SA í mars 2013. Hann ætlar sér að sækjast eftir því að leiða Viðreisn í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu í komandi kosningum.
Sterklega er búist við því að Benedikt Jóhannsson, formaður Viðreisnar, muni skipa forystusæti í Reykjavík einnig og fyrr í dag tilkynnti Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og pistlahöfundur, að hann lýsti formlega yfir áhuga á því að taka sæti á lista Viðreisnar í komandi þingkosningum, sem fyrirhugaðar eru 29. október næstkomandi. Fari hann fram muni hann taka sæti á lista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.