Það að aðilii sé skráður úr landi eftir ætluð skattaundanskot breytir engu um heimildir skattayfirvalda til að rannsaka hann. Þetta segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. Í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, um árangur af kaupum á gögnum um fjármuni Íslendinga í erlendum skattaskjólum á Alþingi í síðustu viku kom fram að 57 einstaklingar sem séu í þeim gögnum verði ekki rannsakaðir vegna þess að þeir hafa annað hvort flutt úr landi eða eru látnir.
Bryndís segir að hún ætli að þarna sé átt við aðila sem séu ekki með skattalega heimilsfesti á Íslandi. Það megi ekki skilja svar Bjarna sem svo að í þessum tilvikum sé grunur uppi um undanskot en það að aðilar séu fluttir úr landi standi í vegi fyrir að skattayfirvöld rannsaki mál þeirra. Þá sé ástæða til að nefna líka að þó að aðilar skrái sig úr landi þá er sú skráning sem slík ekki ein og sér nægjanleg til að skattaleg heimilisfesti falli niður.
Hún segir að skattayfirvöld geti leitt í ljós að aðilar séu í reynd búsettir hér á landi þrátt fyrir formlega skráningu um annað. Heimild sé fyrir því í lögum, t.d. vegna hinnar svokölluðu þriggja ára reglu. „ Er það þá rannsakað sérstaklega og þónokkur dæmi eru um það í framkvæmd. Þá skal þess líka getið að þessi atriði koma til skoðunar þegar aðili er skráður úr landi á sama tímabili og ætluð undanskot varða. Það að aðili sé skráður úr landi einhvern tíma síðar eða áður breytir engu um heimildir skattyfirvalda til rannsóknar.“
Fjölmargir þeirra Íslendinga sem opinberaðir voru í Panamaskjölunum svokölluðu eiga lögheimili erlendis. Þeir eiga það þó allir sameiginlegt að hafa efnast mjög á viðskiptum á Íslandi og flutt peninga úr íslensku efnahagskerfi yfir í erlend eignarhaldsfélög.
Keypt í fyrrasumar
Gögnin sem Svandís spurði um voru boðin til sölu í fyrra og loks keypt í fyrrasumar. Gögnin komu frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca & Co í Panama og eru því, að minnsta kosti að hluta, sömu gögn og fjölmargir fjölmiðlar víða um heim birtu fréttir úr í apríl síðastliðnum. Þegar íslenska ríkið keypti gögnin kom fram að þar væru upplýsingar um 400 Íslendinga sem tengdust 585 félögum. Í Panamaskjölunum sem lekið var til alþjóðlegu blaðmannasamtakanna ICIJ voru hins vegar upplýsingar um tæplega 600 Íslendinga og um 800 félög í þeirra eigu. Því voru þau gögn ítarlegri en gögnin sem íslensk yfirvöld keyptu í fyrra á 38,2 milljónir króna.
Á meðal þeirra Íslendinga sem koma fram í gögnunum, og eru með tengsl við aflandsfélög, eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Ólöf Nordal innanríkisráðherra og nokkrir stjórnmálamenn af sveitarstjórnarstíginu. Þar var einnig að finna stjórnendur úr lífeyrissjóðakerfinu og fjölmarga einstaklinga sem hafa verið áberandi í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum. Þar á meðal voru Jón Ásgeir Jóhannesson, Ingibjörg Pálmadóttir, Lýður og Ágúst Guðmundssynir, Finnur Ingólfsson, Sigurður Bollason, Hannes Smárason, Björgólfur Thor Björgólfsson ofl.
Hluti þessa hóps er skráður með lögheimili erlendis.
30 mál í rannsókn
Þegar gögnin sem ríkissjóður keypti voru skoðuð kom í ljós að á fjórða tug þeirra einstaklinga sem fjallað er um í þeim hefur áður sætt rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra (SRS) vegna ætlaðra skattalagabrota. Eftir greiningarvinnu SRS var ákveðið að 30 mál myndu sæta áframhaldandi meðferð þar sem fyrir þá rökstuddur grunur um undanskot tekna. Rannsókn á þeim stendur enn yfir. Í svari Bjarna segir enn fremur: „Athugun RSK (Ríkisskattstjóri) hefur leitt í ljós að skattskil 178 einstaklinga sem koma fram í gögnunum hafa á þessu stigi gefið tilefni til þess að stofnuð hafa verið mál á þessa einstaklinga hjá embættinu. Þá liggur fyrir að 57 einstaklingar sæta ekki frekari skoðun þar sem þeir eru ýmist látnir eða fluttir úr landi. Enn fremur eru 19 lögaðilar í gögnunum sem þarf að skoða betur auk 83 einstaklinga sem enn þá eru til athugunar. Óljóst er á þessari stundu hversu mörgum málum kann að verða vísað aftur til SRS að lokinni athugun RSK.“