Fresta þurfti þremur atkvæðagreiðslum sem voru á dagskrá Alþingis í dag vegna lélegrar mætingar þingmanna. Því var þingfundur aðeins rúmur hálftími að lengd, og eini dagskrárliðurinn voru störf þingsins.
Þingmenn Samfylkingarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar, vöktu athygli á þessu undir liðnum störf þingsins og Óttarr Proppé og Róbert Marshall, þingmenn Bjartrar framtíðar gerðu það einnig.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagði þetta vera af eðlilegum ástæðum. Fjarvistir þingmanna væru meðal annars vegna skuldbindinga erlendis og í kjördæmum, sem væru mikilvægir þættir í starfi þingmanna. „Alþingi hefur starfað mjög vel frá því að það kom saman til nefndarfunda og svo þingfunda núna í ágústmánuði.“
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, kom einnig upp í ræðustól og sagðist ætla að bera í bætifláka fyrir meirihlutann, til að allrar sanngirni væri gætt þá væru mörg stór og mikilvæg mál inni í þingnefndum. Hún tók undir það að það væri sérkennileg staða að eina málið á dagskrá væru störf þingsins, en þingmenn vissu það að mörg mál væru í vinnslu í nefndum.