Haukur Logi Karlsson lögfræðingur er hættur við að sækjast eftir því að vera í forystu Framsóknarflokksins í Reykjavík í komandi kosningum. Hann tilkynnti fyrir tólf dögum að hann ætlaði að sækjast eftir að skipa efsta sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Haukur, sem er fyrrverandi formaður Sambands ungra Framsóknarmanna, sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem hann dregur framboð sitt til baka. Baráttan um efsta sætið í Reykjavík norður hjá Framsóknarflokknum mun því verða á milli tveggja sitjandi þingmanna flokksins sem eru að færa sig um kjördæmi, Karls Garðarssonar og Þorsteins Sæmundssonar. Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sækist ein eftir því að leiða flokkinn í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Í tilkynningu segir Haukur að breyttar aðstæður ráði því að hann geti ekki gefið sér þann tíma sem að nauðsynlegur væri í kosningabaráttu. „Af þeim sökum sé ég ekki ástæðu til þess að halda framboði mínu áfram og hef því tilkynnt formanni kjörstjórnar um að ég dragi framboð mitt til baka. Meðframbjóðendum mínum óska ég velfarnaðar í framhaldinu og hvet ég Framsóknarmenn í Reykjavík til að fylkja sér á bak við Lilju Dögg Alfreðsdóttur og þann frambjóðanda sem sigrar í kosningunni um hitt oddvitasætið svo ná megi árangri í kosningunum í lok október. Stuðningsmönnum þakka ég góða hvattingu og stuðning á meðan framboðinu stóð.“
Haukur Logi á sér fjörbreyttan bakgrunn, meðfram háskólanámi starfaði hann við járnabindingar. Hann frá útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008, lauk LLM gráðu í Evrópurétti frá Háskólanum í Stokkhólmi árið 2009, og hefur frá árinu 2012 stundað doktorsnám í samkeppnisrétti við Evrópuháskólann í Flórens á Ítalíu.
Haukur Logi hefur starfað í Framsóknarflokknum frá árinu 1998. Hann var formaður félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík 2002-2003 og formaður Sambands ungra Framsóknarmanna 2003-2005.