Matsnefnd um lögreglunám á háskólastigi, sem mennta- og mennningarmálaráðherra skipaði 20. júlí, komst að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands væri hæfastur til að taka við kennslu- og rannsóknarstarfsemi a sviði lögreglufræða. Samt hefur ráðherrann, Illugi Gunnarsson, ákveðið að ganga til samninga við Háskólann á Akureyri, sem þótti næst hæfastur samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar, um að taka við lögreglunáminu. Þetta kemur fram í frétt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Þar segir að matsnefndin hafi fengið það hlutverk að fara yfir innsend gögn frá þeim háskólum sem lýst höfðu yfir áhuga á að taka við lögreglunáminu. Fjórir háskólar skiluðu þátttökutilkynningu og gögnum fyrir skilafrest, sem var 22. júlí. gögn bárust frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum á Bifröst og Háskólanum í Reykjavík. Umsókn Háskólans á Bifröst uppfyllti ekki hæfiskröfu um viðurkenningu til kennslu í sálfræði.
Niðurstaða matsnefndarinnar var sú að þrír fyrstnefndu háskólarnir væru allir hæfir til að taka við lögreglunáminu. Háskóli Íslands var hins vegar metinn hæfastur allra, og fékk 128 stig af 135 mögulegum. Þar á eftir kom Háskólinn á Akureyri með 116 stig af 135 og síðastur var Háskólinn í Reykjavík með 110 stig af 135.
Illugi ákvað að ganga ekki til samninga við þann skóla sem þótti hæfastur, heldur við Háskólann á Akureyri. Að mati ráðherrans „uppfyllti Háskólinn á Akureyri mjög vel þær kröfur sem gerðar eru um gæði náms og aðbúnað til lögreglumenntunar. Þá telur ráðherra aðstæður við HA til þess fallnar að gera nemendum af landinu öllu kleift að leggja stund á lögreglunámi. Að auki er með þessari ákvörðun skotið styrkari stoðum undir fjölbreytta starfsemi Háskólans á Akureyri.“