Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, fagnar ákvörðun Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, að semja við Háskólann á Akureyri um að sjá um lögreglunám. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu hans á Facebook. Þar segir Sigmundur Davíð: „Góð ákvörðun hjá menntamálaráðherra að semja við Háskólann á Akureyri um lögreglunámið. Reynsla skólans af fjarnámi og því að sinna landinu öllu mun nýtast vel. Skólinn reyndist mjög hæfur til að taka að sér námið og aukin umsvif munu svo gera hann enn hæfari til að auka umsvifin áfram. Semsagt, jákvæð keðjuverkun!“
Matsnefnd um lögreglunám á háskólastigi, sem mennta- og mennningarmálaráðherra skipaði 20. júlí, komst að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands væri hæfastur til að taka við kennslu- og rannsóknarstarfsemi a sviði lögreglufræða. Samt ákvað ráðherrann, Illugi Gunnarsson, að ganga til samninga við Háskólann á Akureyri, sem þótti næst hæfastur samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar, um að taka við lögreglunáminu. Því er ljóst að byggðarsjónarmið höfðu áhrif á niðurstöðu ráðherrans, en rektor Háskóla Íslands sagði við mbl.is fyrr í dag að umsóknarferlið hafi gengið út frá því að um staðnám yrði að ræða.
Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík sóttust einnig eftir að fá lögreglunámið. Niðurstaða matsnefndarinnar var sú að að allir háskólar nema sá á Bifröst væru hæfir til að taka við lögreglunáminu. Háskóli Íslands var hins vegar metinn hæfastur allra, og fékk 128 stig af 135 mögulegum. Þar á eftir kom Háskólinn á Akureyri með 116 stig af 135 og síðastur var Háskólinn í Reykjavík með 110 stig af 135.
Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, var ekki ánægður með niðurstöðuna og skrifaði harðorða grein í kjölfar hennar. Þar segir hann að rekin sé nýlendurstefna höfuðborgarsvæðisins gegn landsbyggðinni. „Niðurstaða mín vegna þeirrar nýlenduþróunar sem ég skynja í samskiptum höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar er sú að fyrr eða síðar kemur til stofnunar flokks á svipuðum grunni og Skoski þjóðarflokkurinn. Sá flokkur mun þá hafa á stefnuskrá sinni að Ísland verði sambandsríki þar sem sem landsbyggðin getur þá tekið málin í eigin hendur. Það gerist ekki fyrir þessar kosningar en gæti vel gerst fyrir þær næstu ef núverandi flokkakerfi snýr ekki af braut nýlendustefnunnar,“ segir Vilhjálmur meðal annars í greininni.