Um 42 prósent fyrirtækja á Íslandi telja að það sé skortur á starfsfólki á Íslandi. Hlutfall þeirra hefur ekki verið jafn hátt síðan í lok árs 2007. Þetta kemur fram í sumarkönnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins sem greint er frá í ritinu Peningamál, sem Seðlabanki Íslands birti í dag.
Þar segir að fyrirtæki landsins virðist eiga sífellt erfiðara með að manna störf þrátt fyrir töluverðan innflutning vinnuafls til landsins. Nú telji rúmlega fjórða hvert fyrirtæki að það vanti fólk til vinnu og jókst hlutfall þeirra sem töldu það stöðuna um 22 prósentustig á milli ára. Um 60 prósent fyrirtækja í byggingariðnaði og um 40 prósent fyrirtækja í flutningum og ferðaþjónustu telja sig búa við skort á starfsfólki, og er skorturinn þar mestur. Önnur fyrirtæki, t.d. í iðnaði, sjávarútvegi og verslun eru hins vegar einnig farin að finna verulega fyrir þessum skorti og fjölgar þeim mikið á milli kannana. Fyrirtæki virðast mæta þessari stöðu með því að flytja inn vinnuafl í auknum mæli og var hreinn flutningsjöfnuður jákvæður sme nam 1,3 prósentum af vinnuafli á fyrri hluta ársins. Til samanburðar var hann 0,3 prósent af vinnuafli á sama tíma í fyrra.
Í Peningamálum segir að niðurstöður könnunar Gallup bendi til þess að vinnuaflseftirspurn muni aukast enn frekar á þessu ári. „Tæplega 40 prósent fleiri fyrirtæki vildu frekar fjölga starfsmönnum en fækka þeim á næstu mánuðum. Gert er ráð fyrir að vinnuaflseftirspurn verði áfram kröftug á næstu misserum og er gert ráð fyrir að heildarvinnustundum fjölgi að meðaltali um 2,5 prósent á ári á spátímanum sem er svipuð fjölgun og í maí. Eins og í maí er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði um 3,3 prósent í ár og hjaðni lítillega til viðbótar á næsta ári en taki síðan smám saman að þokast upp í það sem talið er vera langtíma jafnvægisatvinnuleysi þegar líða tekur á spátímann.“
Erlendir flykkjast í íslensk láglaunastörf
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að erlendir ríkisborgarar séu nú yfir tíu prósent þeirra sem greiði skatta á Íslandi. Rúmlega annar hver nýr skattgreiðandi hérlendis á síðustu árum hefur komið erlendis frá og á árinu 2015 einu saman voru 74,4 prósent allra nýrra skattgreiðenda erlendir ríkisborgarar. Það þýðir að þrír af hverjum fjórum sem bættist við skattgrunnskrá landsins í fyrra voru erlendir ríkisborgarar en einn af hverjum fjórum var íslenskur ríkisborgari.
Kjarninn hefur einnig fjallað ítarlega um brott- og aðflutning íslenskra ríkisborgara til landsins. Samkvæmt gagnagrunni Hagstofunnar hafa brottfluttir umfram aðflutta Íslendinga aðeins verið marktækt fleiri í fimm skipti síðan árið 1961, en það var alltaf í kjölfar kreppuára á Íslandi. Sú er hins vegar ekki raunin núna. Íslendingar eru að flytja annað þrátt fyrir góðæri en í staðinn eru að koma erlendir ríkisborgarar sem sækja í þau atvinnutækifæri sem eru að skapast á Íslandi, aðallega tengd ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Í flestum tilfellum er um að ræða láglaunastörf.
Í nýrri mannfjöldaspá Hagstofu Íslands fyrir árin 2016 til 2065 kemur fram að ekki verður nein breyting á ef fram fer sem horfir. Þar segir: „Fjöldi aðfluttra verður meiri en brottfluttra á hverju ári, fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda. Íslenskir ríkisborgarar sem flytja frá landinu munu halda áfram að vera fleiri en þeir sem flytja til landsins.“ Hagstofan gerir ráð fyrir því að að meðaltali muni 850 fleiri íslenskir ríkisborgarar flytja af landi brott á ári hverju en flytjist til baka.
Fjöldi aðfluttra umfram brottflutta verður hins vegar meiri áfram, en það er fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda sem sækja í atvinnutækifæri á Íslandi.