Það gæti komið í ljós nú í kvöld hvort haldið verður flokksþing hjá Framsóknarflokknum fyrir kosningar eða ekki. Á flokksþingi yrði kosið um forystu flokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður þess þyrfti því að endurnýja umboð sitt.
Ef aukakjördæmisþing framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, sem haldið er í kvöld, ákveður að það vilji boða til flokksþings verður það gert. Það er vegna þess að nú þegar hafa tvö kjördæmisþing ályktað að þau vilji boða til flokksþings og samkvæmt reglum flokksins þurfa þrjú af fimm kjördæmisþingum að gera svo.
Um síðustu helgi fóru fram kjördæmisþing í Norðvestur- Norðaustur- og Suðurkjördæmi. Bæði í Suður- og Norðvesturkjördæmi var samþykkt að flokksþingi skyldi flýtt og það haldið fyrir kosningar í vetur. Í kjördæmi formannsins Sigmundar Davíðs, Norðausturkjördæmi, var tillaga um að halda flokksþing fyrir kosningar naumlega felld. Greiða þurfti atkvæði tvisvar um tillöguna og mun Sigmundur Davíð hafa barist hart gegn tillögunni.
Jafnvel þótt kjördæmisþingið í kvöld álykti gegn því að flýta flokksþingi mun fara fram tvöfalt flokksþing í Reykjavíkurkjördæmunum á laugardag. Þá verður tillaga um að flýta flokksþingi borin undir fundarmenn þar.
Fram kom í Fréttablaðinu á þriðjudag að búist sé við um 200 manns á fundinn í kvöld. Allir þingmenn Framsóknarflokksins í kjördæminu, þau Eygló Harðardóttir, Willum Þór Þórsson og Þorsteinn Sæmundsson vilja flýta flokksþingi. Eygló hefur ekki útilokað að hún myndi bjóða sig fram til formanns, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sagst ætla að bjóða sig fram áfram.
Fundur framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi hefst klukkan sjö í kvöld í Kópavogi.