Ekki verður hægt að kjósa um fjögur efstu sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi eins og til stóð að gera í lokuðu flokksvali. Ástæðan er sú að það buðu sig bara fram þrír einstaklingar í prófkjörinu. Bæjarins besta á Ísafirði greindi frá þessu.
Í samtali við Kjarnann segir Geir Guðjónsson, formaður kjörstjórnar, að fleiri hafi boðið sig fram í prófkjörinu, í þriðja og fjórða sæti listans. Hann hafi verið þar á meðal. Hins vegar hafi verið tekin ákvörðun um að minnka prófkjörið, enda fylgi töluverður kostnaður þátttöku í prófkjöri í svo stóru kjördæmi, og ljóst hefði verið að þann kostnað þurfi að greiða þann kostnað sjálfir. Því hafi aðrir frambjóðendur dregið sig til baka og ákveðið hafi verið að stilla upp á listann frá og með þriðja sæti.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu, býður sig fram til að leiða listann. Hún var í öðru sæti fyrir síðustu kosningar en kom inn á þing þegar Guðbjartur Hannesson, sem leiddi listann, lést. Guðjón Brjánsson og Inga Björk Bjarnadóttir sækjast einnig eftir því að leiða listann.
Flokksvalið á að fara fram 8.-10. september næstkomandi og til stóð að kosning í fyrstu fjögur sætin yrði bindandi og jafnræði kynja yrði gætt með paralista. Þar sem aðeins þrír buðu sig fram á endanum verður ekki hægt að kjósa um fjögur sæti, heldur verður þess í stað bindandi kosning um efstu tvö sætin.
Samfylkingin heldur einnig prófkjör í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæmi á sama tíma. Ekki er búið að loka fyrir framboðsfrest í þeim kjördæmum.
Inn í fréttina hefur verið bætt upplýsingum frá Geir Guðjónssyni, formanni kjörstjórnar.