Aðalheiður Ámundadóttir, sem var framkvæmdastjóri þingflokks Pírata þorra þessa kjörtímabils og var oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi í síðustu kosningum, hefur samþykkt að gerast kosningastjóri Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingar, í flokksvali þess flokks sem er framundan. Sigríður Ingibjörg sækist eftir fyrsta sæti í flokksvali flokksins í Reykjavík. Hún skipaði efsta sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður í kosningum og hefur setið á þingi frá árinu 2009.
Aðalheiður tilkynnti í júní að hún ætlaði ekki fram fyrir hönd Pírata í komandi kosningum og að hún myndi láta af störfum fyrir þingflokkinn. Í samtali við Eyjuna vegna þessa sagðist hún einfaldlega ekki hafa áhuga á pólitík. Svo virðist sem henni hafi snúist hugur og samkvæmt stöðuuppfærslu sem Aðalheiður setti á Facebook í dag þá ætlar hún að stýra baráttu Sigríðar Ingibjargar fyrir því að leiða Samfylkinguna í Reykjavík. Þar segir m.a.: „Ég hef að sjálfsögðu skýrt málið fyrir fyrrum samstarfsfólki mínu í þingflokki Pírata, enda þau öll góðir vinir mínir sem ég er alltaf í góðu sambandi við. Ég er Pírati og er skráð í Pírata. Ég er ekki skráð í Samfylkinguna. En ég elska Siggu og það sem hún stendur fyrir í pólitík. Þess vegna legg ég henni lið. Ég vil að hún verði velferðarráðherra.“