Lindarhvoll ehf., eignarhaldsfélag í eigu íslenska ríkisins sem sér um að koma stöðugleikaframlögunum í verð, reiknar með því að Kaupþing muni selja Arion banka að fullu eigi síðar en í árslok 2017. Íslenska ríkið á 13 prósent í bankanum á móti Kaupþingi, sem á 87 prósent. Þetta kemur fram í greinargerð um starfsemi Lindarhvols sem birt hefur verið á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Íslensa ríkið eignaðist töluverðar eignir og hluti í fjöldamörgum fyrirtækjum í gegnum stöðugleikaframlög frá slitabúum fallinna banka fyrr á þessu ári. Niðurstaða í mati á virði stöðuleikaeigna þegar þær voru framseldar í janúar 2016 var sú að þær væri samtals 384,5 milljarða króna virði. Þar skipti allt hlutafé í Íslandsbanka mestu, en hann var metinn á 184,8 milljarða króna. Þar á eftir komu veðskuldabréf Kaupþings sem greiðast á þegar Arion banki er seldur, en það er metið á 84 milljarða króna. Auk þess var gerður afkomuskiptasamningur vegna Arion banka sem metinn er á 19,5 milljarða króna. Því er 288,3 milljarðar króna, eða 74 prósent af stöðugleikaframlögunum, bundið í virði tengt Íslandsbanka og Arion banka. Selja þarf báða bankanna til að þeir peningar endi í ríkissjóði.
Sérstakt félag utan um stöðugleikaeignir
Íslenska ríkið stofnaði sérstakt félag, Lindarhvoll ehf., til að taka við stöðugleikaeignunum og koma þeim í verð. Félagið réð síðan Landsbankann til að veita ráðgjöf við sölu á þeim hlutabréfaeignum sem þar var að finna. Um er að ræða eignir ríkisins í stórum fyrirtækjum sem eru skráð á markað, Eimskip, Símanum, Reitum og Sjóvá. Þær hafa þegar að hluta til verið seldar.
Ekkert er fjallað um sölu á Íslandsbanka í greinargerðinni. Þar segir hins vegar að með vísan til
þeirrar áætlunar sem Lindarhvoll ehf. „hefur gert fram til 31.12.2016 liggur fyrir að félagið stefnir á að verkefni þess dragist verulega saman strax á árinu 2017. Áætlað er að þá verði aðeins um að ræða virka umsýslu á framseldum eignum að bókfærðu virði um 7,3 milljarðar króna og jafnframt eftirlit með skilyrtum fjársópseignum að bókfærðu virði um 6,6 milljarðar króna. Þá verði áfram gætt hagsmuna ríkissjóðs vegna sölu á Arion banka hf. í gegnum eftirlitsaðila, skv. framsalssamningi Kaupþings hf. Gerir Lindarhvoll ehf. ráð fyrir að Kaupþing ehf. muni selja Arion banka hf. að fullu eigi síðar en í árslok 2017.“
Því mun félagið hafa, miðað við ofangreindar forsendur, hafa náð markmiðum sínum fyrr en gert var ráð fyrir í upphaflegum áætlunum og starfsemi þess í árslok 2017 verður mjög óveruleg.
Háir bónusar fyrir að selja
Morgunblaðið greindi frá því í gær að viðræður um kaup hóps lífeyrissjóða á 87 prósent hlut Kaupþings í Arion banka hafa runnið út í sandinn. Þetta hefur gerst samhliða því að nýir stjórnendur hafa tekið við hjá Kaupþingi í kjölfar þess að nauðasamningur bankans var kláraður um síðustu áramót og eignarhaldsfélagið Kaupþing tók við eftirstandandi eignum hans. Engar viðræður eru í farvatninu.
Kaupþing þarf að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árslok 2018. Takist það ekki mun ríkissjóður leysa bankann til sín. Þetta var hluti af því samkomulagi sem kröfuhafar Kaupþings gerðu við ríkið þegar samið var um uppgjör á slitabúi bankans á síðasta ári.
DV greindi frá því í byrjun viku að hópur um 20 starfsmanna Kaupþings ætti von á samtals 1,5 milljarði króna í bónusgreiðslur ef sala á eignum félagsins gengi vel á næstu tæpu tveimur árum. Þær bónusgreiðslur ná ekki til æðstu stjórnenda Kaupþings og þykir líklegt að sérstakt bónuskerfi, með hærri greiðslum, verði sett upp fyrir þá. Langverðmætasta eign Kaupþings er hluturinn í Arion banka.