Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist sannarlega vera til í flokksþing hvenær sem er. Það sé hins vegar álitamál hvort það henti flokknum að verja kröftum og fjármagni í flokksþing rétt fyrir kosningar. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu hans.
Sigmundur birtir mynd þar sem klipptar hafa verið saman fréttir af vef RÚV um flokksþing Framsóknarflokksins, og reyndar ein frétt um flokksþing Demókrataflokksins í Bandaríkjunum. Hann segir einnig að sumir virðist hafa fengið stórkostlegan áhuga á fundadagskrá Framsóknarflokksins, og nefnir beina útsendingu RÚV frá fundarstað framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, en þeir kusu á kjördæmisþingi í gær með því að halda flokksþing í flokknum fyrir kosningar. Á slíku flokksþingi yrði kosið um forystu flokksins.
Sigmundur Davíð segir að kjördæmisþingin hjá flokknum séu haldin til að taka ákvörðun um val á aðferð við röðun á framboðslista. „Líklega hefur aldrei verið eins mikill áhugi á því að vita hvaða aðferði yrði valin fyrir val á framboðslista hjá nokkrum flokki. Reyndar kom á daginn að athyglin snerist fyrst og fremst (eða eingöngu) um einstakan áhuga á því hvort Framsóknarflokkurinn myndi halda flokksþing. Þó eru nokkrar vikur frá því að boðað var til miðstjórnarfundar einmitt til að boða flokksþing. Miðstjórn mun taka málið fyrir og velja dagsetningu út frá því sem hentar flokknum best,“ skrifar hann.
Hann segir jafnframt að stundum læðist að honum sá grunur að „sérstakir áhugamenn um flokksþing utan flokksins séu áhugasamari um eitthvað annað“ en það að fara yfir „hina geysisterku málefnastöðu“ flokksins og hvernig sé hægt að vinna nýja sigra.
Sumir virðist gefa í skyn að það sé betra fyrir hann að hafa flokksþing eftir kosningar en fyrir þær. „Það ber ekki endilega vott um mikinn pólitískan skilning. Augljóslega er best fyrir formann sem mæti málið einungis út frá eigin stöðu að halda flokksþing fyrir kosningar og fara í kosningabaráttu með nýendurnýjað umboð fremur en að fara í kosningar (sérstaklega í miklu óvissuástandi eins og núna) og mæta svo á flokksþing í framhaldinu. Það á alveg sérstaklega við þegar annað forystufólk í sama flokki hefur gefið fyrirheit um að það ætli ekki að fara gegn formanninum.“
Það sé hins vegar meira álitamál hvort það henti flokknum að verja kröftum og fjármagni í flokksþing fyrir kosningar, „sérstaklega ef grunur reynist réttur um það að áhugafólk um flokksþing utan flokks hafi takmarkaðan áhuga á árangri og málefnavinnu flokksins.“
Sigmundur Davíð lýkur svo færslunni á því að spyrja hvernig undirbúningur flokksþinga og landsfunda í öðrum flokkum gangi. „Ætli það verði ekki farið yfir það í beinni í fréttum í kvöld og næstu daga.“