Kastljós, Reykjavik Media og Uppdrag Granskning hafna því að þeim fréttamönnum sem unnu umfjöllun uppúr Panamaskjölunum svokölluðu sem birtist á RÚV 3. apríl 2016 hafi verið afhentar ítarlegar upplýsingar um eignarhaldsfélagið Wintris. Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og eigandi Wintris, hélt því fram í viðtali við Morgunblaðið í morgun og að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra upplýsinga sem afhentar hafi verið við vinnslu þáttarins.
Í yfirlýsingu frá þeim sem að umfjölluninni unnu segir að Sigmundi Davíð, þáverandi forsætisráðherra, hafi verið sendur ítarlegur spurningalisti. „Við þeim spurningum fengust ekki svör, þótt þær væru ítrekaðar. Lykilspurningum sem lúta að Wintris Inc. var því aldrei svarað. Aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs vísaði í bloggfærslu Sigmundar og yfirlýsingu KPMG. Hann sendi blaðamönnum Süddeutsche Zeitung einnig skjal sem svar við spurningalista þeirra, en því miður fólust ekki í því svör við þeim spurningum sem þar höfðu verið lagðar fram.
Í þættinum var hins vegar endurtekið vísað í yfirlýsingar þeirra beggja og bloggfærslur, sem birtar voru í aðdraganda þáttarins.
Forsætisráðherra var að auki ítrekað boðið í viðtal um aðkomu sína að félaginu, sem hann þáði ekki. Rétt eins og áður hefur verið bent á í yfirlýsingu undirritaðra vegna ummæla Sigmundar Davíðs frá því í júní síðastliðnum.“
Undir yfirlýsinguna skrifa Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavík Media, Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður, Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kastljóss, Helgi Seljan, fréttamaður Kastljóss, Sven Bergman, fréttamaður Uppdrag Granskning hjá SVT og Joachim Dyfvermark, framleiðandi, Uppdrag Granskning hjá SVT.