Rekstrarskilyrði leikskóla í Reykjavík eru verri nú en síðustu fimmtán ár, að mati Önnu Margrétar Ólafsdóttur, leikskólastjóra Nóaborgar, en hún tjáði sig um vanda leikskólana á Facebook síðu sinn í gær og viðtali við RÚV.
Hún segir að staða mála í kjölfar hrunsins hafi verið mun betri en hún er núna. Reksturinn hafi aldrei verið eins erfiður og undanfarið ár. Sviðstjóri Skóla- og frístundasviðs segir að leikskólum borgarinnar sé sniðinn of þröngur stakkur.
Hluti af hagræðingaraðgerðum Reykjavíkurborgar, með það að markmiði að styrkja grunnreksturinn, voru aðhalds- og hagræðingaraðgerðir í leik- og grunnskólum.
Sigrún Björnsdóttir, hjá Reykjavíkurborg, sagði í svari við fyrirspurn Kjarnans, að unnið hefði verið eftir hagræðingaráætlun hjá borginni allt árið, til að bregðast við verri stöðu hjá Reykjavíkurborg. „Hagræðingarkrafa á allar starfsstöðvar skóla- og frístundasviðs og allar stofnanir borgarinnar lá fyrir í janúar á þessu ári vegna verri fjárhagsstöðu borgarinnar. Hagræðingarverkefnin hafa verið sambærileg hjá leikskólum og grunnskólum og snúa aðallega að innkaupum á vöru og þjónustu, þar með talið innkaupum á matvöru sem leitast verður við að mæta með samræmdum innkaupaferlum. Að auki verður endurskoðað fyrirkomuleg stuðnings og sérkennslu. Hagræðingin nemur u.þ.b. 0,8% af heildarrekstri leikskólanna í borginni. Aðalhagræðingin verður í miðlægri stjórnsýslu eða allt að 5%,“ segir í svari Sigrúnar.
Anna Margrét nefnir dæmi um þrönga stöðu í Facebook færslu sinni. Leikskólar fái minna fjármagn til að kaupa mat en eigi samt að fylgja lýðheilsumarkmiðum. Niðurskurðurinn bitni á börnunum. „Fyrir rúmar 30.000 kr. á dag á ég að sjá 100 manns fyrir morgunmat, ávaxtastund, hádegisverði og síðdegishressingu. Bara fiskurinn kostar t.d. um 24.000 og þá er allt annað eftir,“ segir Anna Margrét.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði á Facebook síðu sinni á dögunum, að hagræðingaraðgerðir borgarinnar væru að skila ánægjulegum árangri. Hagræðingarvinna og hærri skatttekjur skiluðu borginni jákvæðri niðurstöðu á A-hluta upp á 490 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Í heildina var áformað að ná fram 604 milljóna króna hagræðingu borgarsjóðs á fyrri hluta ársins en aðgerðir skiluðu um 611 milljóna hagræðingu, að því er segir á vef borgarinnar. Innan A-hluta er hinn almenni rekstur borgarinnar sem fjármagnaður er af skatttekjum.
Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 490 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 300 mkr á tímabilinu. Niðurstaðan er því 790 milljónum króna betri en gert var ráð fyrir. Betri rekstrarniðurstaða skýrist að stærstum hluta af hærri skatttekjum, sem voru 554 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir og hagræðingarvinnu á fagsviðum borgarinnar sem skiluðu 611 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.
En þessi hagræðing hefur ekki náðst fram sársaukalaust, eins og sést á rekstri leikskólana, sm hefur sjaldan eða aldrei verið þyngri og erfiðari.