Frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um losun fjármagnshafta gengur ekki nógu langt í þá átt að afnema höft á viðskipti með íslenskar krónur, sem þó er löngu tímabært. Þetta segir Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Ráða megi af frumvarpinu að höftin muni áfram um alllanga framtíð torvelda viðskipti með íslenskar krónur.
„Erfitt er að sjá rök fyrir því að setja strangari reglur um viðskipti með íslenskar krónur en tíðkast um gjaldmiðla grannríkja,“ segir meðal annars í umsögn Hagfræðistofnunar um frumvarpið.
Voru óvirk þar til Már tók við
Hagfræðistofnun segir að höftin hafi að miklu leyti verið óvirk strax sumarið 2009 og allt hefði stefnt í að örlög þeirra yrðu svipuð og annars staðar þar sem höft hafi verið sett á af svipuðu tilefni á nýliðnum árum, það er að þau yrðu afnumin án þess að margir tækju eftir því og án þess að þess sæjust veruleg merki á mörkuðum. Þetta hafi breyst þegar Már Guðmundsson tók við sem Seðlabankastjóri haustið 2009 og höftin voru hert. Frá þeim tíma hafi útlendingar sem eigi fé á Íslandi fengið mörg færi á að flytja fé sitt héðan í uppboðum, en minni áhugi hafi verið á því en Seðlabankinn hafi búist við. „Þeir töldu gengi krónunnar í útboðinu of lágt. Með öðrum orðum höfðu útlendingarnir meiri trú á krónunni en bankinn. Erfitt er að sjá að krónueign þeirra skapi mikla hættu fyrir krónuna.“
Höft á gjaldeyrisviðskipti geti valdið stórtjóni, til dæmis fyrir lífeyrissjóði sem þurfi að eiga stóran hlut af eignum sínum erlendis ef vel eigi að vera. „Það dregur úr áhættu sjóðfélaga og vænt ávöxtun að gefinni áhættu vex. Þvinguð eign í íslenskum verðbréfum skapar hættu á að bólur verði til á innlendum markaði.“
Þegar bankarnir hrundu hafi erlend verðbréfaeign lífeyrissjóða dregið úr tapi þeirra. „Þegar eignaverð hrapar næst hér á landi, þegar bakslag verður í hagkerfinu, verður erlend verðbréfaeign ekki sami bakhjarl og 2008.“
Framganga yfirvalda skaði orðspor Íslendinga
Þá segir Hagfræðistofnun að höftin hafi leitt til óþæginda í daglegu lífi fólks, það hafi átt erfitt með að flytjast úr landi, ekki fengið arf fluttan til útlanda og útlendingar á Íslandi hafi ekki getað greitt vexti og afborganir af lánum í heimalandi sínu. „Á frjálsum markaði ræðst gengi gjaldmiðla ekki síst af almennri trú á hagstjórn landa sem gefa gjaldmiðlana út. Fjármagnshöft koma í veg fyrir að gengi krónunnar sé nýtilegur mælikvarði á gæði hagstjórnar hér á landi. Enn er ótalið að höftin og framganga yfirvalda gagnvart erlendum fjárfestum skaða orðspor Íslendinga í öðrum löndum.“
Hagfræðistofnun fjallar einnig um að í upphafi frumvarpsins segi að allar fjármagnshreyfingar séu óheimilar, en svo séu taldar upp undantekningar. Stofnunin segir að sérreglur sem ráðist af tilefni gjaldeyrisviðskipta, þjóðerni þeirra sem eigi viðskiptin eða félagslegri stöðu þeirra séu þunglamalegar og hamli gegn skilvirkni í hagkerfinu.
„Ekki má gleyma því að óheft millilandaviðskipti eru miklu mikilvægari fyrir smáþjóðir en þær sem stærri eru. Ef ætlunin er að draga úr hættu á skyndilegum gengishreyfingum má gera það með reglum sem gilda fyrir alla - til dæmis tímabundnum útgönguskatti. Óvíst er þó að ástæða sé til þess að setja slíkar reglur núna.“