Tuttugu starfsmenn Kaupþings munu fá bónusgreiðslur upp á tæplega 1,5 milljarð króna samanlagt. Þetta var samþykkt á aðalfundi eignarhaldsfélagsins í kvöld. Mbl.is greinir frá og segir að tillagan hafi verið samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.
Fulltrúi eignasafns Seðlabanka Íslands kaus gegn tillögunni, að því er fram kemur á Mbl.is. Eignasafn Seðlabankans á 6,3% hlut í Kaupþingi.
Að miklu leyti eru þetta sömu starfsmenn og þegar hafa fengið greidda tugi milljóna í bónusa vegna nauðasamninga Kaupþings um síðustu áramót. Ef starfsmönnum mun takast að hámarka virði óseldra eigna félagsins og þar með endurheimtur munu greiðslurnar aukast frekar.
Bónusgreiðslurnar eiga að greiðast út ekki síðar en í lok apríl 2018. Langstærsta óselda eign Kaupþings er 87 prósent hlutur í Arion banka, viðskiptabanka sem starfar að mestu á íslenskum markaði og var endurreistur af íslenska ríkinu með íslenskum innstæðum.