Kaupverðið sem framtakssjóðurinn Horn III greiddi fyrir 80 prósent hlut í Basko ehf. sem rekur m.a. 10-11, Iceland og Dunkin Donuts á Íslandi, er trúnaðarmál. Þetta segir Hermann Már Þórisson, annar framkvæmdastjóra sjóðsins, í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið. Tilkynnt var um kaupin, sem eru þau fyrsta sem Horn III ræðst í, í gær.
Horn III er framtakssjóður sem Landsbréf lauk fjármögnun á í mars á þessu ári. Alls settu rúmlega 30 hluthafar tólf milljarða króna inn í sjóðinn. Um er að ræða lífeyrissjóði, fjármálafyrirtæki og aðra ónafngreinda fagfjárfestasjóði. Í frétt sem birt var á vef Landsbréfa, sjóðsstýringafyrirtækis í eigu Landsbankans, og þar með íslenska ríkisins.
Keypti 10-11 árið 2011
Í fréttatilkynningu vegna kaupanna segja framkvæmdastjórar Horns, Hermann Már og Steinar Helgason, að Basko hafi vaxið hratt á undanförnum árum með opnun nýrra staða og verslana. Þeir telji að mikil tækifæri séu á þessum markaði á Íslandi. „Verslanir dótturfélaga Basko eru vel staðsettar og hafa hluthafar félagsins markað sér skýra sýn sem unnið verður eftir næstu árin. Við erum mjög ánægðir með að hafa lokið þessum viðskiptum og hlökkum til samstarfsins."
Basko var áður í 100 prósent eigu Árna Péturs Jónssonar, forstjóra fyrirtækisins. Hann keypti 10-11 verslunarkeðjuna af Arion banka árið 2011 í kjölfar þess að keðjan var tekin út úr Hagasamsteypunni þegar hún var endurskipulögð og seld til nýrra eigenda. 10-11 var selt út úr Högum að kröfu Samkeppniseftirlitsins. Kaupverðið var ekki gefið upp.
Samstæða sem hefur vaxið hratt
Árni Pétur var á árum áður forstjóri Vodafone og fjarskiptafélagsins Teymis. Hann starfaði þar áður lengi fyrir Baug, félag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu, meðal annars sem framkvæmdastjóri Aðfanga. Baugur átti Haga, og þar með 10-11, áður en félagið fór í þrot árið 2009. Árið 2012 keypti rekstrarfélag 10-11 verslanir 11-11 af Kaupáss. Kaupverðið var ekki gefið upp en Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri móðurfélags Kaupáss, sagði við Viðskiptablaðið að það hefði verið óverulegt.
Árið 2013 keypti félag hans ráðandi hlut í félaginu sem rekur Iceland-verslanirnar á Íslandi af Jóhannesi Jónssyni heitnum, kenndum við Bónus. Kaupverðið var trúnaðarmál.
Í ágúst í fyrra opnaði Basko síðan fyrsta Dunkin Donuts kaffihúsið á Íslandi, en þau eru nú fjögur talsins. Fyrstu vikuna sem staðurinn var opin seldust um tíu þúsund kleinuhringir á dag.
Auk 10-11, Iceland og Dunkin Donuts rekur Basko Imtex ehf., sem annast innflutning og rekur vöruhús fyrir samstæðuna og hamborgarastaðinn Bad Boys.