Gylfi Ólafsson, heilsuhagfræðingur frá Ísafirði, um leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Hann sóttist einn eftir leiðtogasætinu. Frá þessu er greint á vefnum bb.is.
Í öðru sæti verður Lee Ann Maginnis, verkefnastjóri upplýsingamiðstöðvar ferðamála á Blönduósi og þriðja sæti skipar Sturla Rafn Guðmundsson, Garðabæ, svæðisstjóri Rarik á Vesturlandi. Fullskipaður listi Viðreisnar verður gerður opinber 12. september ásamt listum flokksins í öðrum kjördæmum.
Mótun framboðslista Viðreisnar er nú er á lokametrunum. Í síðustu viku var tilkynnt um að Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ætli að leiða annað Reykjavíkurkjördæmið fyrir flokkinn. Hitt kjördæmið verður að öllum líkindum leitt af Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar. Þá ætlar Pawel Bartoszek, pistlahöfundur og stærðfræðingur, sér einnig sæti á lista flokksins í höfuðborginni.
Jóna Sólveig Elínardóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur tilkynnt um framboð og þykir líklegust til að vera í efsta sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Enn á eftir að greina frá því hverjir leiða lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er sterklega orðuð við framboð, og í Norðausturkjördæmi. Miðað við þær áætlanir Viðreisnar að vera með jafnt kynjahlutfall á meðal oddvita framboðslista sinna munu konur leiða í báðum þeim kjördæmum.
Kjarninn fjallaði ítarlega um Viðreisn og áhrif framboðsins á íslensk stjórnmál í fréttaskýringu í síðustu viku.