Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Plain Vanilla, sem framleiðir spurningaleikinn QuizUp, mun loka skrifstofu sinni á Íslandi. Öllu starfsfólki, 36 manns, var sagt upp í morgun.
NBC, sem ætlaði að framleiða spurningaþætti undir nafninu QuizUp, hefur hætt við framleiðsluna og rekstrarforsendur brustu til frekari fjármögnunar og þróunar á fyrirtækinu hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Vonir höfðu staðið til að reksturinn yrði sjálfbær þegar notendum fjölgaði samhliða áætlaðri frumsýningu þáttarins.
Fyrirtækinu var svo tilkynnt um það í síðustu viku að NBC hefði hætt við þættina. Það kom flestum að óvörum, samkvæmt heimildum Kjarnans, enda hafði fyrirtækið þegar pantað þrettán þætti og búið var að vinna mikla vinnu í sambandi við þá. Búið var að ákveða frumsýningardag og finna þættinum stað í dagskrá stjónvarpsstöðvarinnar, klukkan 19 á sunnudagskvöldum frá og með 5. mars næstkomandi.
Plain Vanilla mun halda leiknum gangandi áfram næstu þrjá mánuði og leiða verður leitað til að þróun leiksins geti haldið áfram þrátt fyrir að ekki verði af sjónvarpsþættinum og að skrifstofan loki hér á landi, segir í fréttatilkynningunni. Samkvæmt heimildum Kjarnans stendur til að reyna að selja leikinn annað.
Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain Vanilla, segir í tilkynningunni að veðjað hafi verið á viðamikið samstarf við NBC. „Segja má að við höfum sett of mörg egg í þessa NBC körfu en við höfum eytt miklum tíma og orku í þróun sjónvarpsþáttarins. Þegar ég fékk skilaboðin frá NBC um að hætt yrði við framleiðslu þáttarins þá varð um leið ljóst að forsendur fyrir frekari rekstri, án umfangsmikilla breytinga, væru brostnar. Eftir stendur að síðustu ár hafa verið ótrúlegt ævintýri fyrir mig og alla þá sem komu að Plain Vanilla. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna með ótrúlega hæfileikaríku fólki á þessari vegferð. Ég er spenntur að sjá hvað starfsfólk Plain Vanilla tekur sér fyrir hendur í framtíðinni og er handviss um að fjöldi nýrra fyrirtækja verður stofnaður af þessum hóp sem hefur fengið frábæra reynslu hjá okkur undanfarin ár.“