Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, ætlar að bjóða sig fram fyrir hönd Viðreisnar í komandi Alþingiskosningum. Hún ætlar að taka sæti á lista flokksins í Reykjavík. „Ef allt fer á besta veg verða stjórnmálin því aðalvettvangur minn næstu fjögur árin. Mér finnst ég eiga samleið með flokknum sem endurspeglar strauma frjálslyndis og jafnréttis. Og hópurinn sem er að stíga þarna fram er skemmtilegur og hugmyndaríkur. Hópur sem ég er stolt af að tilheyra og hlakka til að vinna með.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu hennar á Facebook í dag.
Þorbjörg Sigríður hefur gegnt starfi deildarforseta frá því í fyrrasumar. Áður starfaði hún sem aðstoðarsaksóknari hjá embætti ríkissaksóknara og hefur einnig starfað við saksókn fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Þorbjörg lauk LL.M. prófi frá lagadeild Columbia háskóla í New York árið 2011 og sérhæfði sig í alþjóðlegum refsirétti, er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið diplómaprófi í afbrotafræði frá HÍ.
Hún er þriðji einstaklingurinn sem lýsir yfir framboði fyrir Viðreisn í Reykjavík á liðnum dögum. Áður höfðu Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdstjóri Samtaka atvinnulífsins, og Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og pistlahöfundur, lýst yfir að þeir sækist eftir sæti á lista flokksins þar.