Ögmundur Jónasson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem eru flutningsmenn tillögu um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um veru flugvallarins í Vatnsmýri, hafa báðir komið að stórum ákvörðunum um flugvöllinn sem ráðherrar og undirritað samkomulög við Reykjavíkurborg um flugvöllinn og lokanir flugbrauta.
Flugvöllurinn í Vatnsmýri verður að
öllum líkindum kosningamál, enda ekki hægt að halda
þjóðaratkvæðagreiðslu um málið samhliða kosningunum í haust. 25
þingmenn úr fjórum flokkum lögðu þingsályktunartillöguna
fram, þar með talinn allur þingflokkur Framsóknarflokksins fyrir
utan Frosta Sigurjónsson og ráðherra flokksins.
Í þingsályktunartillögunni er ályktað að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli áfram vera í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Þingmennirnir sem bera tillöguna fram segja að „öll skynsamleg rök“ hnígi að því að halda flugvellinum og miðstöð innanlandsflugs í Vatnsmýrinni. Þeir opna líka á það í greinargerð með tillögunni að ríkið taki burt skipulagsvald borgarinnar á svæðinu þar sem flugvöllurinn er.
Þegar Ögmundur Jónasson var innanríkisráðherra, í apríl 2013, skrifaði hann undir samkomulag um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli, ásamt Jóni Gnarr, þáverandi borgarstjóra. Í því samkomulagi fólst að norð-austur/suð-vestur flugbrautin yrði lögð af og það land sem við það losnaði yrði skipulagt undir blandaða byggð.
Þar er einnig áréttað að Reykjavíkurborg fari með skipulagsvald á flugvallarsvæðinu samkvæmt skipulagslögum. Þá vinni innanríkisráðherra í samræmi við vilja Alþingis hvað varðar flugvöllinn eins og hann birtist í samgönguáætlun. Þegar Ögmundur var ráðherra talaði hann iðulega um að hann vildi halda flugvellinum í Vatnsmýri, en eins og hann sagði í ræðu á Alþingi í september 2012 að „allir landsmenn eiga að hafa aðkomu að ákvörðun í þessum efnum þótt því sé að sjálfsögðu haldið til haga að skipulagsvaldið er síðan hjá borginni.“
Stjórnarskipti urðu skömmu síðar, og í október sama ár skrifuðu ríkið, Reykjavíkurborg og Icelandair undir samkomulag um innanlandsflug. Þá var Sigmundur Davíð orðinn forsætisráðherra og undirritaði samkomulagið fyrir hönd ríkisins. Í því samkomulagi var meðal annars kveðið á um að Reykjavíkurborg samþykkti að fresta lokun norður-suður flugbrautarinnar frá árinu í ár til ársins 2022. Þá var samkomulag gert um skipan Rögnunefndarinnar svokölluðu, um að fullkanna aðra kosti en framtíðarflugvöll í Vatnsmýri.
Samhliða því var skrifað undir samkomulag milli ríkis og borgar, sem Jón Gnarr og Hanna Birna Kristjánsdóttir undirrituðu sem borgarstjóri og innanríkisráðherra, þar sem kveðið var á um að tilkynnt yrði um lokun norðaustur/suðvestur brautarinnar.
Í grein í Morgunblaðinu í dag segir Sigmundur Davíð hins vegar að hann hafi gert það að skilyrði fyrir samkomulaginu að norðaustur/suðvestur brautinni yrði ekki lokað.
„Í október 2013 var þess farið á leit við mig sem forsætisráðherra að ég undirritaði samkomulag ríkisins, Reykjavíkurborgar og Flugfélags Íslands (eða Icelandair Group) um að gerð yrði enn ein úttekt á því hvar best væri að hafa Reykjavíkurflugvöll. Fyrir vikið sögðust fulltrúar borgarinnar til í að eyða óvissu um flugvöllinn af sinni hálfu a.m.k. til ársins 2022. [...]Í drögum að samkomulaginu var tekið fram að aðilar féllust á að NA/SV-brautinni yrði lokað. Þetta sagði ég vera fráleitt skilyrði sem ekki kæmi til greina að samþykkja. Auk þess sem ég gerði athugasemdir við fleiri atriði í drögunum. Ég kvaðst svo reiðubúinn að undirrita samkomulagið gegn því skilyrði að umrædd atriði yrðu tekin út og það væri á hreinu að ekki væri verið að samþykkja lokun NA/SV-brautarinnar. Þvert á móti væri ég að fallast á þátttöku í undirrituninni til að tryggja að ekki yrði samið um lokun brautarinnar.“
Sigmundur Davíð segir að fallist hafi verið á þetta og samkomulagið svo undirritað í viðurvist ljósmyndara og blaðamanna. “Það kom mér því mjög á óvart að dómstólar skyldu telja ríkið skuldbundið til að loka neyðarbraut flugvallarins þegar ég sem forsætisráðherra hafði beinlínis gert það að skilyrði fyrir undirritun samkomulags við borgina að horfið yrði frá því að semja um það.“