Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að hann hafi gert það sem skilyrði fyrir undirritun samkomulags um úttekt á því hvar væri best að hafa Reykjavíkurflugvöll að Norðaustur/Suðvesturbraut (einnig kölluð neyðarbraut) yrði ekki lokað. Hann segir sölu ríkisins á flugvallarlandi í Skerjarfirði, sem afgreidd hefur verið í ríkisstjórn og Bjarni Benediktsson hefur sagt sig skuldbundinn til að standa við, vera ólögmæta og vill rifta henni. Þetta kemur fram í aðsendri grein Sigmundar Davíð í Morgunblaðinu í dag sem fjallar um Reykjavíkurflugvöll og mál honum tengd.
Samkomulagið sem Sigmundur Davíð vísar í snérist um að ljúka vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll. Hann tók sjálfur þátt í að undirrita samkomulag um framtíð innanlandsflugs þennan dag, sem snérist að mestu um skipun Rögnunefndarinnar svokölluðu og að lokun einni af stærri brautum Reykjavíkurflugvallar sem gert var ráð fyrir í aðalskipulagi yrði frestað frá 2016 til 2022. Undirritunin fór fram í Hörpuí október 2013 fyrir framan mynda- og upptökuvélar fjölmiðla. Aðrir sem undirrituðu það samkomulag voru Jón Gnarr, þá borgarstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir, þá innanríkisráðherra, Dagur B. Eggertsson, þá formaður borgarráðs, og Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Í framhaldssamkomulagi sem undirritað var af Jón Gnarr og Hönnu Birnu við sama tækifæri segir hins vegar: „Aðilar ljúki vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir flugvallarsvæðið og að tilkynnt verði um lokun NA/SV-brautarinnar samhliða auglýsingu þess, síðar á þessu ári. Samtímis skal endurskoða núgildandi skipulagsreglur fyrir Reykjavíkurflugvöll til samræmis.“
Í desember 2013 óskaði innanríkisráðuneytið eftir því að undirbúningur yrði hafin að lokun neyðarbrautarinnar, með þeim fyrirvara að ekkert yrði gert fyrr en að Rögnunefndin svokallaða myndi skila niðurstöðum sínum. Skýrslu hennar var skilað í fyrra og niðurstaða nefndarinnar leysti ekki deilur um framtíð Reykjavíkurflugvallar á nokkurn hátt. Ákvörðun á grundvelli tillagna hennar liggur enn ekki fyrir.
Ólöf Nordal, núverandi innanríkisráðherra, taldi sig ekki bundna af því að standa við þetta samkomulag þegar á reyndi og því stefndi Reykjavíkurborg ríkinu fyrir dómstóla. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms í málínu í júní síðastliðnum þess efnis að í samkomulaginu fælist bindandi loforð um að loka brautinni.
Segir samkomulagið ekki hafa snúist um lokun brautarinnar
Sigmundur Davíð segir þetta þvert á það sem hann hafi lagt upp með við samkomulagsgerðina. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag segir hann að í „október 2013 var þess farið á leit við mig sem forsætisráðherra að ég undirritaði samkomulag ríkisins, Reykjavíkurborgar og Flugfélags Íslands (eða Icelandair Group) um að gerð yrði enn ein úttekt á því hvar best væri að hafa Reykjavíkurflugvöll. Fyrir vikið sögðust fulltrúar borgarinnar til í að eyða óvissu um flugvöllinn af sinni hálfu a.m.k. til ársins 2022. [...]Í drögum að samkomulaginu var tekið fram að aðilar féllust á að NA/SV-brautinni yrði lokað. Þetta sagði ég vera fráleitt skilyrði sem ekki kæmi til greina að samþykkja. Auk þess sem ég gerði athugasemdir við fleiri atriði í drögunum. Ég kvaðst svo reiðubúinn að undirrita samkomulagið gegn því skilyrði að umrædd atriði yrðu tekin út og það væri á hreinu að ekki væri verið að samþykkja lokun NA/SV-brautarinnar. Þvert á móti væri ég að fallast á þátttöku í undirrituninni til að tryggja að ekki yrði samið um lokun brautarinnar.“
Sigmundur Davíð segir að fallist hafi verið á þetta og samkomulagið svo undirritað í viðurvist ljósmyndara og blaðamanna. “Það kom mér því mjög á óvart að dómstólar skyldu telja ríkið skuldbundið til að loka neyðarbraut flugvallarins þegar ég sem forsætisráðherra hafði beinlínis gert það að skilyrði fyrir undirritun samkomulags við borgina að horfið yrði frá því að semja um það.“
Líkt og áður sagði undirritaði Sigmundur Davíð ekki það samkomulag sem dómstólar komust að niðurstöðu um að fæli í sér bindandi loforð um lokun neyðarbrautarinnar. Í því samkomulagi, sem Jón Gnarr og Hanna Birna undirrituðu ein, segir: „Aðilar ljúki vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir flugvallarsvæðið og að tilkynnt verði um lokun NA/SV-brautarinnar samhliða auglýsingu þess, síðar á þessu ári. Samtímis skal endurskoða núgildandi skipulagsreglur fyrir Reykjavíkurflugvöll til samræmis.“
Sigmundur Davíð fjallar einnig um sölu ríkisins á landi sínu í Skerjafirði nýverið á 440 milljónir króna. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra taldi sig skuldbundinn að standa við samkomulagið sem gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar og því var salan afgreidd.Sigmundur Davíð er ósammála niðurstöðu Bjarna og segir að það megi ljóst vera að salan standist hvorki lagalegar forsendur né fjárhagslegar forsendur. Hún vinni auk þess gegn því markmiði að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll. „Annað getur því vart talist forsvaranlegt en að rifta hinum ólögmæta samningi. Sú riftun myndi vonandi marka umskipti í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og sýna að ríkisvaldið sé reiðubúið að gera það sem þarf til að stöðva tilraunir borgaryfirvalda til að fjarlægja flugvöllinn sneið fyrir sneið.“
Ljóst má vera að gera á framtíð innanlandsflugs og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar að kosningamáli. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa nokkrum sinnum lagt fram frumvörp um að taka skipulagsvald á flugvallarsvæðinu af Reykjavíkurborg og í vikunni lögðu 25 þingmenn úr fjórum flokkum fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli áfram vera í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Allir þingmenn Framsóknarflokksins utan ráðherra hans standa að tillögunni.