Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, mun verða í fyrsta sæti á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi. Frá þessu greindi hann í viðtali á Morgunvaktinni með Óðni Jónssyni á Rás 1 í morgun. Áður hafði verið búist við því að hann myndi bjóða fram í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu, en þegar hefur verið tilkynnt um þrjá einstaklinga sem sækjast eftir sætum ofarlega á lista þar. Þeir eru Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og pistlahöfundur.
Fyrir tveimur dögum var greint frá því að Gylfi Ólafsson, heilsuhagfræðingur frá Ísafirði, muni leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Jóna Sólveig Elínardóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur tilkynnt um framboð og þykir líklegust til að vera í efsta sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Enn á eftir að greina frá því hverjir leiða lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er sterklega orðuð við framboð. Viðreisn ætlar að vera með jafnt kynjahlutfall í efstu sætum á framboðslistum sínum og því er ljóst að kona mun leiða í öðru Reykjavíkurkjördæminu, í Suðurkjördæmi og í Suðvesturkjördæmi.