Walmart, stærsti vinnuveitandi Bandaríkjanna, hefur ákveðið að innleiða formlega nýtt tölvukerfi í rekstur sinn sem stuðlar að öruggari uppgjörum og gagnageymslu. Kerfið hefur verið í prófun í verslunum smásölurisans undanfarna mánuði. Kerfið mun leysa af sjö þúsund starfsmenn fyrirtækisins, á sviði bókhalds og uppgjörs.
Í sumar var kerfið formlega prófað í 500 verslunum víða um Bandaríkin og var niðurstaðan sú, að umtalsverð hagræðing næðist fram með því að notast við það.
Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC hefur Walmart reynt að fjölga starfsfólki sem aðstoðar viðskipavini í búðum, en fækka í stjórnun og höfuðstöðvum.
Samtals vinna 2,2 milljónir hjá Walmart um allan heim, og þar af eru 1,5 milljónir í Bandaríkjunum. Fyrirtækið hefur lengi verið gagnrýnt fyrir að greiða lág laun, en lágmarkslaun fyrirtækisins, sem stór hluti starfsmanna þess fær greitt eftir, fá 10 Bandaríkjadali á tímann, eða sem nemur 1.170 krónum á klukkustund.
Sam Walton er stofnandi fyrirtækisins, og er Walton fjölskyldan ennþá stærsti eigandi þess. Fjórir fjölskyldumeðlimir eru á meðal 10 ríkustu einstaklinganna í Bandaríkjunum. Heildar eignir Walmart eru metnar um 200 milljarðar Bandaríkjadala.