Óhætt er að segja að stærsta útgerðarfyritæki landsins, Samherji, hafi átt góðu gengi að fagna á undanförnum árum, en á árunum 2011 til og með 2015 hefur fyrirtækið hagnast um 71,7 milljarða króna.
Hagnaður árið 2011 var 8,8 milljarðar, árið 2012 16 milljarðar, árið 2013 22 milljarðar, árið 2014 11 milljarðar og árið 2015 var hagnaðurinn 13,9 milljarðar króna. Samanlagður hagnaður er 71,7 milljarðar króna á þessu fimm ára tímabili. Þetta er langsamlega besta rekstrartímabil í sögu fyrirtækisins og má segja að fyrirtækið hafi stungið önnur sjávarútvegsfyrirtæki af, þegar kemur að stærð og fjárhagslegum styrk.
Rekstrartekjur samstæðu Samherja voru tæpir 84 milljarðar króna árið 2015, samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 19,9 milljörðum króna, samanborið við 16,4 milljarða árið á undan, en það er um 23 prósent af heildartekjum.
Eignir fyrirtækisins hafa aukist jafnt og þétt á síðustu árum, en arðgreiðslur hafa oft verið í kringum tíu prósent af árlegum hagnaði. Þannig var reyndin vegna rekstrarársins í fyrra og eru því 1,4 milljarðar greiddir til hluthafa.
Í efnahagsreikningi eru eignir Samherja samstæðurnar í lok árs 2015 samtals 119 milljarðar króna. Heildarskuldir og skuldbindingar voru 36 milljarðar á sama tíma og bókfært eigið fé 83 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 69,8% í árslok.
Langtímaskuldir fyrirtækisins lækkuðu milli ára um ríflega tólf milljarða. Í árslok 2014 voru þær 25,7 milljarðar en í árslok í fyrra voru þær 13,5 milljarðar. Á móti jukust skammtímaskuldir úr 15,1 milljarði í 22,4 milljarða. Lækkun skulda milli ára nemur því um fimm milljörðum króna.
Eignir fyrirtækisins skiptast í 80,6 milljarða eignir, sem skilgreinast sem fastafjármuni, og síðan 38,4 milljarða veltufjármuni.
Rekstur útgerðar og fiskvinnslu á Íslandi er að mestu leyti í félögunum Samherji Ísland ehf. og Útgerðarfélag Akureyringa ehf., að því er segir í tilkynningu fyrirtækisins, og rekstur fiskeldis er í Íslandsbleikju ehf. Starfsemi samstæðunnar er víða um heim, mest á Íslandi og í Evrópu, en einnig í Afríku og Kanada. Samstæðureikningur Samherja er settur fram í evrum. Í tilkynningunni eru fjárhæðir rekstrar umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við meðalgengi ársins 2015 sem var 146,2 krónur á hverja evru.
Gengi krónunnar hefur styrkst nokkuð gagnvart helstu viðskiptamyntum á þessu ári og er evran nú verðlögð á 131 krónu.
Helstu eigendur Samherja eru frændurnir, forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson og útgerðarstjórinn Kristján Vilhelmsson.
Heildargreiðslur Samherja til hins opinbera í fyrra námu 4,3 milljörðum og nam tekjuskattur starfsfólks 2,2 milljörðum. Meginstarfsemi Samherja á Íslandi er á Eyjafjarðarsvæðinu, einkum á Akureyri og á Dalvík. En starfsemin teygir sig þó víðar um landið.