Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Kviku, var annar þeirra sem kom til greina sem næsti forstjóri Vátryggingafélags Íslands (VÍS) þegar stjórn félagsins ákvað að segja Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur upp störfum um síðustu helgi. Sigurður, sem hefur sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum í lykilverkefnum sitjandi ríkisstjórnar, meðal annars í tengslum við Leiðréttinguna og áætlun um afnám hafta, varð þó ekki fyrir valinu. Stjórn VÍS ákvað frekar að ráða Jakob Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Promens, í starfið. Frá þessu er greint í DV í dag.
Þar segir að staða Sigrúnar Rögnu, sem var eina konan sem stýrði skráðu félagi á Íslandi, hafi verið veik mjög lengi. Nýir einkafjárfestar hafi komið að VÍS á síðasta ári og var uppi krafa breytingar í félaginu vegna þess sem þeir töldu óásættanlega rekstrarafkomu. Um er að ræða þrjá hópa. Félagið Óskabein ehf., sem er meðal annars í eigu Andra Gunnarssonar, lögmanns og eins eiganda KEA-hótela, og Gest B. Gestssonar fjárfestis. Óskabein á um 5,5 prósent í VÍS. Auk þeirra eig félög í eigu hjónanna Guðmundar Arnar Þórðarsonar og Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur liðlega fimm prósent hlut í VÍS. Í mars bættist félagið Grandier í hópinn og er í dag stærsti einkafjárfestirinn í VÍS með um átta prósent eignarhlut. Eigendur þess eru fjárfestarnir Sigurður Bollason og Don McCarthy.
Í DV segir að hluti þessa hóps hafi fjármagnað kaup sín með bankalánum og því hafi þeir þurft á arðgreiðslum að halda til að standa straum af fjármagnskostnaði. Ákvörðun stjórnar VÍS fyrr á þessu ári, í kjölfar mikils samfélagslegs þrýstings, um að lækka arðgreiðslur til hluthafa félagsins úr fimm milljörðum króna í tvo milljarða króna kom þeim því afar illa. Auk þess hefur rekstur VÍS það sem af er ári ekki þótt standa undir væntingum, hvorki trygginga- né fjárfestingahluti hans.
Mikill ólgusjór út af ætluðum arðgreiðslum
VÍS gekk í gegnum mikinn ólgusjó snemma á þessu ári ásamt öðrum skráðum tryggingafélögum í kjölfar þess að tilkynnt var um háar arðgreiðslur til eigenda þeirra. Tillögur stjórna þriggja stærstu tryggingafélaga landsins, VÍS, Tryggingarmiðstöð (TM) og Sjóvá, hljóðuðu upp á að greiða eigendum sínum samanlagt 9,6 milljarða króna í arð og kaupa af þeim hlutabréf upp á 3,5 milljarða króna. Þessar tillögur mældust mjög illa fyrir, bæði hjá almenningi og stjórnmálamönnum. Sérstaklega þar sem hagnaður tveggja þeirra, VÍS og Sjóvár, á árinu 2015 var mun lægri en fyrirhuguð arðgreiðsla. VÍS hagnaðist um 2,1 milljarð króna í fyrra en ætlaði að greiða hluthöfum sínum út fimm milljarða króna í arð. Sjóvá hagnaðist um 657 milljónir króna en ætlað að greiða út 3,1 milljarð króna í arð. TM hagnaðist hins vegar um 2,5 milljarða króna og ætlaði að greiða hluthöfum sínum út 1,5 milljarð króna.
Bæði Sjóvá og VÍS ákváðu síðar að lækka arðgreiðsluna. Sjóvá lækkaði sína úr 3,1 milljarði króna niður í 657 milljónir króna. Stjórn VÍS ákvað að lækka sína arðgreiðslu úr fimm milljörðum króna í 2.067 milljónir króna. Þetta er gert þrátt fyrir að stjórnin teldi að arðgreiðslutilkynningar hennar hafi verið vel innan þess ramman sem markmið um fjármagnsskipan félagsins gerir ráð fyrir.
Í tilkynningu sem send var út í kjölfarið sagði að viðskiptavinir og starfsmenn VÍS skipti félagið miklu. „Stjórnin getur ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að fylgi hún núverandi arðgreiðslustefnu, þá geti það skaðað orðspor fyrirtækisins. Í því ljósi hefur stjórn ákveðið að leggja til að greiðsla sé miðuð við hagnað síðasta árs. Stjórn VÍS telur mikilvægt að fram fari umræða innan félagsins, meðal hluthafa og út í samfélaginu um langtímastefnu varðandi ráðstöfun fjármuna sem ekki nýtast rekstri skráðra félaga á markaði.“