Engin sátt er um Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem formann Framsóknarflokksins eða sem oddvita flokksins í Norðausturkjördæmi, en það sést kannski best á því að allt bendir til þess að hann fái mótframboð á báðum vígstöðvum.
Þrír þingmenn bjóða sig fram í fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi auk Sigmundar Davíðs. Það eru þau Höskuldur Þórhallsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.
Stundin greindi frá því í dag að bæði Þórunn og Líneik hefðu skilað inn framboði í fyrsta sætið. Þórunn sækist eftir fyrsta til öðru sæti og Líneik fyrsta til þriðja sæti. Höskuldur hafði áður greint frá því að hann sæktist eftir fyrsta sætinu, líkt og hann gerði fyrir síðustu kosningar, en þá laut hann í lægra haldi fyrir formanninum Sigmundi Davíð.
Líneik sagði við Stundina að hún styddi Sigmund Davíð sem formann flokksins en sagðist telja mikilvægt að það væri fleiri valkostir í fyrsta sætinu. Því er líklegra að framboð hennar, og Þórunnar, beinist gegn Höskuldi, sem hefur verið mjög gagnrýninn á Sigmund Davíð.
Þá sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins og forsætisráðherra, í dag að hann útilokaði ekki að hann myndi bjóða sig fram til formanns flokksins. Áður hefur hann sagt að hann myndi ekki fara fram gegn sitjandi formanni. Sigurður Ingi var í viðtali við Snærósu Sindradóttur, blaðamann á Fréttablaðinu, á Fundi fólksins. Hann sagði að flokksþing flokksins myndi væntanlega ekki fara fram fyrr en um mánaðamótin september-október. Þangað til væri langur tími í pólitískum skilningi og hann hefði ekki tekið neina ákvörðun. Hann myndi taka allt að sér sem flokkurinn fæli honum að gera. Hann var þá spurður hvort hann væri að ýja að því að það þyrfti að fá Sigmund Davíð til að hætta við formannsframboð sagði hann að það þyrfti að láta flokksmönnum eftir að ræða það.
Áður hefur Eygló Harðardóttir,
félags- og húsnæðismálaráðherra og ritari Framsóknarflokksins,
ekki útilokað að hún gefi kost á sér í formannsembættið.