Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra verður áfram oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Hann hlaut örugga kosningu í fyrsta sætið á kjördæmisþingi sem fram fer í Mývatnssveit í dag.
Njáll Trausti Friðbertsson varð í öðru sæti, en mjótt var á munum milli hans og Valgerðar Gunnarsdóttur þingmanns sem skipaði annað sætið fyrir síðustu kosningar. Njáll var nokkrum atkvæðum ofar en Valgerður, að því er fram kemur á mbl.is.
Talning stendur yfir vegna þriðja sætis, en úrslitin verða kynnt eftir hádegishlé. Valgerður bauð sig einnig fram í það, ásamt Valdimar O. Hermannssyni og Ingibjörgu Jóhannsdóttur. Arnbjörg Sveinsdóttir hafði boðið sig fram en dró framboð sitt til baka og lýsti yfir stuðningi við Valgerði.
Prófkjör fer einnig fram í Norðvesturkjördæmi og í Reykjavíkurkjördæmum hjá flokknum í dag.