Þorsteinn Víglundsson, sem mun leiða framboð Viðreisnar í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmi, segist ekki sjá það fyrir sér gerast að Viðreisn verði þriðja hjólið í samstarfi núverandi ríkisstjórnarflokka eftir kosningar. Þetta kom fram í viðtali Helga Seljan við Þorstein í Vikulokunum á Rás 1 í morgun.
Þorsteinn sagði það fyrsta verkefni Viðreisnar að komast inn á þing og ná árangri í kosningabaráttunni. Ef flokkurinn kæmist í þá stöðu að geta komið að ríkisstjórnarmyndun myndi flokkurinn láta málefnin í forgrunn. „Málefnin hljóta að ráða för og það er margt þar sem ber talsvert á milli okkar og núverandi stjórnarflokka.“
Hann sagði oft sótt að flokknum með því að gefa í skyn að hann yrði einhvers konar þriðja hjól hjá núverandi ríkisstjórnarflokkum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. „Það sé ég ekki fyrir mér gerast,“ sagði Þorsteinn.
Mikið tómarúm hefur skapast inni á miðjunni og frjálslynd sjónarmið orðið undir í stjórnmálum á undanförnum árum, að mati Þorsteins. Hann segir Sjálfstæðisflokkinn hafa orðið íhaldssamari í allri sinni stefnu og miðjuflokkarnir hafi hallað sér til vinstri. Viðreisn sé framboðið sem honum sjálfum hafi þótt vanta inn í pólitíska litrófið. Þess vegna hafi hann sjálfur tekið ákvörðun um að bjóða sig fram fyrir flokkinn.
Þorsteinn sagði Viðreisn munu leggja mikla áherslu á breytingar í sjávarútvegi. Búið væri að rífast um kvótakerfið í 15-20 ár, það hefði náð markmiðunum sem sett hafi verið fram í upphafi um hagræðingu og fleira, en nú hafi skapast svigrúm þar sem verði að ná sátt um að greinin greiði eðlilegt gjald fyrir notkun auðlindarinnar. Þar sé best að nota markaðsleið til að finna út hvað þetta eðlilega gjald sé.
„Við þurfum að hugsa auðlindarentuna þannig að hún nái til annarra greina,“ sagði Þorsteinn einnig. Við munum þurfa að takast á við þessa umræðu í ferðaþjónustu og orkugeiranum.