Evran fór í morgun niður fyrir 130 krónur og hefur gengi krónunnar ekki verið sterkara gagnvart evru frá því fyrir hrunið og setningu fjármagnshafta í nóvember. Evran kostar nú 129,63 krónur, og hefur nú í byrjun september farið í fyrsta skipti í átta ár niður fyrir 130, en á tólf mánuðum hefur gengi krónunnar gagnvart evrunni styrkst um 10,59 prósent.
Mikil styrking krónunnar að undanförnu hefur breytt stöðu útflutningsfyrirtækja mikið á skömmum tíma, og hefur samkeppnisstaða þeirra versnað umtalsvert.
Mikil styrking krónunnar á skömmum tíma hefur haft mikil áhrif á verðbólguhorfur hér á landi, enda lækkar innflutt verðbólga umtalsvert þegar slík þróun á sér stað. Verðbólgan mælist nú 0,9 prósent og virðast fjárfesta á fjármagnsmarkaði frekar búast við því að verðbólgan haldist innan 2,5 prósent verðbólgumarkaði næstu mánuði og jafnvel ár.
Eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans í gær, þá má búast við því að vextir á húsnæðislánum með breytilega vexti, óverðtryggða og verðtryggða, muni lækka á næstunni, þar sem þróun á skuldabréfamarkaði hefur verið í þá átt. Þannig má gera ráð fyrir að vextir á húsnæðislánum lífeyrissjóða eigi eftir að lækka frekar, en erfiðara er að segja til um hvað bankarnir gera, þar sem þeir hafa ekki sömu viðmið og lífeyrissjóðirnir þegar kemur að endurskoðun vaxta.
Meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú 5,25 prósent, eftir 0,5 prósentustiga lækkun á síðasta vaxtaákvörðunardegi. Ekki er útilokað að vextir muni lækka enn meira, en þó gerir verðbólguspá seðlabankans ráð fyrir að verðbólga aukist nokkuð á næsta ári en verði þó stærstan hluta ársins undir 2,5 prósent markmiðinu.