Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, býst við því að kosningaþátttaka í Alþingiskosningunum í haust verði með versta móti. Hann segir að þátttaka í prófkjörum stjórnmálaflokka í undirbúningi komandi kosninga hafi verið dræm hjá þeim flokkum sem haldið hafa slík. Grétar telur minnkandi stjórnmálaáhuga fólks og minnkandi traust á stjórnmálamönnum hafa þær afleiðingar að kosningaþátttaka dragist saman. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.
Grétar nefnir sérstaklega þátttöku í tveimur prófkjörum Sjálfstæðisflokksins sem fram fóru um helgina þessu til stuðnings. Í Reykjavík kusu 3.430 Sjálfstæðismenn sen er versta kjörsókn í prófkjöri flokksins frá upphafi. Í síðasta prófkjöri flokksins í Reykjavík, sem fór fram 2012, tóku 7.546 manns þátt. Þeim sem kusu fækkaði því um 4.116 á milli prófkjara. Í Norðvesturkjördæmi kusu 1.516 manns en fyrir þingkosningarnar 2007 tóku rúmlega 2.700 þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í því kjördæmi. Þá fór nýverið fram prófkjör Pírata á höfuðborgasvæðinu - í báðum Reykjavíkurkjördæmunum og í Suðvesturkjördæmi - þar sem 1.319 manns tóku þátt. Samkvæmt nýjustu Kosningaspá Kjarnans, sem gerð var 2. september, eru Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar stærstu stjórnmálaöfl á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur nú meira fylgis en Píratar sem hafa átt meira fylgi að fagna undanfarna mánuði og verið vinsælasta stjórnmálaaflið á Íslandi í könnunum. Sjálfstæðisflokkur mælist með 25,6 prósent og Píratar með 24,9 prósent. Munurinn á fylgi þessara framboða er innan vikmarka.
Ungir skila sér síður á kjörstað
Í nýlegum rannsóknum hefur verið sýnt fram á að kjörsókn ungs fólks hefur minnkað hraðar á undanförnum árum en meðal þeirra sem eldri eru. Séu niðurstöður íslensku kosningarannsóknarinnar á kosningahegðun Íslendinga í síðustu fjórum Alþingiskosningum skoðaðar, þá sést að yngstu aldurshóparnir draga kjörsóknarhlutfallið niður.
Árin 2003, 2007, 2009 og 2013 var það aldurshópurinn 18-24 ára skilar sér síst á kjörstað. Að meðaltali svöruðu 82,0 prósent á aldrinum 18 til 24 ára sem tóku þátt í kosningarannsókninni þessi ár að þau hefðu kosið í Alþingiskosningum. Miðað við fólk á 35 til 64 ára þar sem meðalhlutfall þeirra sem sögðust hafa kosið var 91,8 prósent.