Innanflokksátök í Framsóknarflokknum eru nú komin upp á yfirborðið í umræðum um flugvöllinn í Vatnsmýri. Höskuldur Þórhallsson þingmaður, sem sækist eftir oddvitasætinu í Norðausturkjördæmi eins og formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skrifaði grein í Fréttablaðið í morgun þar sem hann gagnrýnir Sigmund Davíð harðlega.
Höskuldur sagðist taka undir harða gagnrýni Sigmundar á sölu ríkisins á flugvallarlandi í Vatnsmýrinni til borgarinnar, en að hann geri verulegar athugasemdir við það sem hann segir ávirðingar hans í garð ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar, rangar söguskýringar og villandi efnistök.
Hann segir að í fyrsta lagi hafi Sigurður Ingi og þingmenn Framsóknarflokksins gagnrýnt sölu á flugvallarlandinu harðlega, en þeir hafi hvergi komið að málinu, heldur hafi það verið ákvörðun innanríkis- og fjármálaráðherra, sem bæði tilheyri Sjálfstæðisflokknum. Þá segir Höskuldur það ótrúverðugt ef ekki beinlínis rangt hjá Sigmundi Davíð að halda því fram að hann hafi gert það að skilyrði fyrir undirritun samkomulags við borgina um stofnun Rögnunefndarinnar að hinni svokölluðu neyðarbraut yrði ekki lokað. Það komi hvergi fram í gögnum.
Hörð viðbrögð
Í kjölfarið steig Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina fram á Facebook-síðu sinni til varnar Sigmundi Davíð. Hún sagði að Höskuldur hefði ekki sett sig inn í flugvallarmálið eins og honum hafi borið að gera sem formanni umhverfis- og samgöngunefndar. „Þessi persónulega óvild hans í garð „Sigmundar er alveg vandræðaleg og endurspeglast í þekkingar- og áhugaleysi Höskuldar á flugvallarmálinu. Höskuldur sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar var í lykilstöðu til að koma í veg fyrir lokun neyðarbrautarinnar en hann tók ekkert mark á innsendum athugasemdum og rökum. Höskuldur sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar er sá aðili sem hefði getað brugðist við þegar öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna sendi vel rökstuddar athugasemdir á umhverfis- og samgöngunefnd í september í fyrra um að nothæfisstuðullinn væri rangt reiknaður.“ Valdið hafi verið Höskuldar en hann hafi ekki notað það. „Margt hefur veið skrifað og sagt í flugvallarmálinu, þessi grein hans Höskuldar slær öll met í þekkingarleysi.“
Þessi gagnrýni Guðfinnu var tekin upp í fjölmiðlum og Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er einn þeirra sem tekur undir með Guðfinnu með því að deila frétt RÚV um ummæli hennar á Facebook-síðu sinni.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, gerir líka lítið úr grein Höskuldar á Facebook-síðu sinni, en hann deilir grein yfirmanns síns.
Höskuldur hefur verið einna gagnrýnastur framsóknarmanna í garð Sigmundar Davíðs. Hann er ekki einungis að bjóða sig fram gegn honum í Norðausturkjördæmi heldur hefur hann hvatt Sigurð Inga Jóhannsson til þess að bjóða sig fram til formanns gegn Sigmundi. Haustfundur miðstjórnar flokksins verður í Hofi á Akureyri á laugardaginn og þar verður flokksþing boðað, þar sem kosið verður um forystu flokksins.