Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir ágúst 2016 nam verðmæti vöruútflutnings tæplega 40,7 milljörðum króna og verðmæti vöruinnflutnings rúmlega 53,3 milljörðum króna. Vöruviðskiptin íslenska hagkerfisins í ágúst voru því óhagstæð um 12,7 milljarða króna.
Frá þessu var greint á vef Hagstofu Íslands í gær.
Vöruskiptajöfnuður hefur verið neikvæður að undanförnu, en sé þjónustan tekin með í reikninginn er vöru- og þjónustujöfnuður jákvæður um sem nemur 5 prósent af árlegri landframleiðslu. Í fyrra var vöru- og þjónustujöfnuður jákvæður um 155,2 milljarða króna, og munaði þar mest um ferðaþjónustuna. Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður um 35,5 milljarða en þjónustujöfnuður hagstæður um 190,7 milljarða.
Gera má ráð fyrir að styrking krónunnar gagnvart erlendum myntum að undanförnu, hafi ýtt undir neyslu á innfluttum vörum sem hafa lækkað í verði í krónum talið. Evran er nú komin niður í 129 krónur en hún kostaði 150 krónur fyrir ári síðan. Bandaríkjadalur kostar nú rúmlega 115 krónur en hann kostaði 136 krónur fyrir ári síðan.
Í nýjustu Peningamálum Seðlabanka Íslands segir að gert sé ráð fyrir áframhaldandi töluverðum afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum. „Horfur eru á að útflutningur vöru og þjónustu muni aukast um 8½% á þessu ári sem er nokkru meiri vöxtur en spáð var í maí. Vöxturinn er að talsverðu leyti borinn uppi af auknum þjónustuútflutningi, en ferðamönnum hefur fjölgað ört og kortavelta þeirra hér á landi jókst mikið á fyrri hluta ársins frá sama tíma í fyrra. Horfur um vöruútflutning eru hins vegar svipaðar og í maí en samsetning vaxtarins hefur breyst lítillega. Samanborið við maíspá bankans er nú búist við minni vexti álútflutnings og meiri samdrætti í útflutningi sjávarafurða, þar sem aflaheimildir sem úthlutað var á fiskveiðiárinu sem hefst í september reyndust minni en gert var ráð fyrir í síðustu Peningamálum en á móti vegur að spáð er meiri útflutningi af öðrum vörum. Áætlað er að nokkuð muni hægja á útflutningsvexti á næstu árum aðallega sakir lítils hagvaxtar í helstu viðskiptalöndum og hækkunar raungengis,“ segir í Peningamálum.