Tekjur vegna gesta sem heimsóttu Hallgrímskirkjuturn í ár eru áætlaðar 237 milljónir króna. Árið 2010 voru þær 27,2 milljónir króna og því hafa næstum nífaldast á sex árum. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Í dag kostar 900 krónur fyrir fullorðna og 100 krónur fyrir börn á aldrinum 6-16 ára að fara upp í Hallgrímskirkjuturn. Langflestir þeirra sem heimsækja turninn eru erlendir ferðamenn. Alls keyptu um 200 þúsund gestir sér ferð upp í turninn í fyrra sem gaf Hallgrímskirkju tekjur upp á 161 milljón króna. Í Fréttablaðinu segir að áætlað sé að heimsóknum gesta í turninn muni fjölga um 30 prósent á milli áranna 2015 og 2016. Því er búist við að gestir hans verði yfir 260 þúsund í árslok sem myndi þýða tekjur upp á 237 milljónir króna. Tekið er fram að heimsóknartölur vegna gesta í turninn séu ekki alveg á hreinu og enn sé verið að fá reynslu á nýtt talningartæki sem tekið var í notkun í byrjun árs.
Allar tekjur af turnferðunum renna til Hallgrímskirkju og fara meðal annars í að greiða fjögur hundruð milljóna króna bankalán sem hvílir á kirkjunni vegna viðhaldsframkvæmda á turninum sem voru 2008-2009. Þá þarfnast Hallgrímskirkja mikils viðhalds og nú sé meðal annars unnið að steypuviðgerðum utanhúss upp á 60 milljónir króna. Þá stendur til að endurnýja turnlyftuna og kaupa nýjan tæknibúnað fyrir kirkjuklukkur. Jónanna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju, segir við Fréttablaðið að umræddar viðhaldsframkvæmdir hefðu ekki verið mögulegar ef ekki væri fyrir tekjur af turnheimsóknum.