Höfuðstöðvar Framsóknarflokksins voru veðsettar fyrir 50 milljóna króna láni í maí síðastliðnum. Í tryggingabréfi sem þinglýst var vegna lánsins kemur ekki fram hver lánveitandinn er, en nöfn annarra lánveitenda koma fram á öðrum lánum sem hvíla á húsi Framsóknarflokksins, sem stendur við Hverfisgötu 33. Bréfsefnið sem notað var við gerð tryggingabréfsins var frá fjármálafyrirtækinu Kviku. Forstjóri Kviku er mágur formanns Framsóknarflokksins. Frá þessu er greint í Fréttatímanum í dag.
Viðskiptin fóru fram í gegnum eignarhaldsfélagið Skúlagarð hf., sem á skrifstofuhúsnæði Framsóknarflokksins. Tveir stjórnarmenn þess, Sigrún Aspelund og Þorfinnur Jóhann Björnsson, eru starfsmenn á skrifstofu flokksins. Hvorugt þeirra sagðist vita hver væri lánveitandinn.
Einar Gunnar Einarsson, sem er nýtekinn við sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, vildi ekki veita blaðinu viðtal vegna málsins og Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns, sagði málið á forræði framkvæmdastjóra.
Valhöll veðsett og óljóst eignarhald hjá Samfylkingu
Fréttatíminn greinir einnig frá því að Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins sé veðsett Landsbankanum, sem er í eigu ríkisins, fyrir 360 milljónir króna láni. Það lán var tekið í fyrra og með töku þess tvöfölduðust skuldirnar sem hvíla á Valhöll. Húsnæðið er metið á 480 milljónir króna. Á meðal þeirra sem skrifuðu undir lánið var Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Húsnæðismál Samfylkingarinnar hafa líka verið töluvert í fréttum á þessu ári, en hún leigir húsnæði á Hallveigarstíg 1 af tveimur félögum, Sigfúsarsjóði og Alþýðuhúsi Reykjavíkur. Vakin hefur verið athygli á því að félagið Alþýðuhús Reykjavíkur sé í eigu félaganna Fjalars og Fjölnis en eignarhald þeirra er óljóst. Sigfúsarsjóður var stofnaður árið 1952 til minningar um Sigfús Sigurhjartarson, þingmann Sósíalistaflokksins og ritstjóra Þjóðviljans.
Í apríl síðastliðnum birtist frétt á vefSamfylkingarinnar sem Kristján Guy Burgess, framkvæmdastjóri hennar, er skrifaður fyrir. Þar segir „Eigendur húsnæðisins eru sjálfstæðir lögaðilar sem eru óháðir og ótengdir Samfylkingunni. Staðfest hefur verið að þeir aðilar eru íslenskir og ekki með starfsemi erlendis. Þeir eru heldur ekki, né hafa verið partur af samstæðu Samfylkingarinnar. Flokkurinn hefur engin áhrif á stjórn eða framkvæmdastjórn félaganna tveggja. Samfylkingin hefur hvorki innsýn í eignarhald eða fjármál þeirra, né neins konar boðvald yfir þeim."
Vinstri græn seldu húsnæði sitt við Suðurgötu árið 2014 til að rétta við fjárhagsstöðu sína. Önnur stjórnmálaframboð sem hyggja á þátttöku í kosningunum í haust eiga ekki eigið húsnæði.