Hagvöxtur á árinu 2015 var 4,2 prósent og hann var dreginn áfram af neyslu og fjárfestingu. Einkaneysla jókst up 4,3 prósent í fyrra og fjárfesting um heil 18,3 prósent. Útflutningur jókst um 9,2 prósent en innflutningur um 13,5 prósent. Þrátt fyrir að verulegur afgangur (166,6 milljarðar króna) hafi verið af vöru- og þjónustuviðskiptum, fyrst og síðast vegna tekna af þjónustu við ferðamenn, dró utanríkisverslun úr hagvexti á árinu. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofa Íslandsbirti í morgun.
Hagvöxturinn í fyrra var umtalsvert hærri en hann var árið 2014, þegar hann var 1,9 prósent. Flestar spár höfðu gert ráð fyrir að hagvöxtur á árinu 2014 yrði mun meiri og Hagstofan sjálf hafði til að mynda gert ráð fyrir að hann yrði 2,7 prósent. Hagvöxturinn í fyrra nær þó ekki þeim hæðum sem hann var árið 2013 þegar hann mældist 4,4 prósent.
Í endurskoðunum tölum Hagstofunnar á áður birtum niðurstöðum kemur ýmislegt annað merkilegt fram. Stofnunin hefur til að mynda endurskoðað niðurstöður sínar um hagvöxt á árinu 2009, árið eftir hrunið. Gömlu tölurnar sögðu að landsframleiðsla hefði dregist saman um 4,7 prósent á því ári en nýju tölurnar mæla samdráttinn töluvert meiri, eða 6,6 prósent. Kreppan sem Íslendingar gengu í gegnum árið 2009 var því mun dýpri en áður var haldið.
Þjóðarútgjöld aukast hratt
Hagstofan hefur einnig birt tölur um landsframleiðslu á fyrstu sex mánuðum ársins 2016. Þar kemur fram að hagvöxtur var 4,1 prósent á fyrri hluta ársins en þjóðarútgjöld, samtala neyslu og fjárfestingar, jókst um, 9,4 prósent. Það er umtalsvert meira en á síðasta ári þegar þjóðarútgjöld jukust um sex prósent.
Útflutningur hefur aukist það sem af er ári um 5,3 prósent, sem er meira en í fyrra. Á sama tíma hefur innflutningur aukist um 16,2 prósent, sem er umtalsvert meiri aukning en í fyrra. Sem fyrr er hagvöxtur drifinn áfram af einkaneyslu og fjárfestingu.