Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að ekki sé lengur tilefni til þess að hafa í gildi yfirlýsingu um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum, sem verið hefur í gildi frá því í október 2008. Þetta er gert eftir samráð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands.
Í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna þessa segir: „Yfirlýsing um að ríkið ábyrgðist allar innstæður var gefin eftir fjármálaáfallið haustið 2008. Innlendar innlánsstofnanir standa í dag traustum fótum, hvað snertir eigið fé, fjármögnun, lausafé eða jafnvægi í rekstri. Þá hafa ýmsar viðamiklar breytingar orðið á lagaumhverfi fjármálamarkaða á síðustu árum frá setningu neyðarlaganna árið 2008. Þar má nefna breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki árið 2010 og breytingar á lagaumhverfi fjármálamarkaða, m.a. með stofnun fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar. Þá hafa nýjar reglur tekið gildi um eigið fé bankanna þar sem gerðar eru verulega auknar kröfur um eigið fé og gæði þess.
Einnig hafa orðið breytingar á lögum um innstæðutryggingar þar sem sú vernd sem innstæðutryggingakerfið veitir er afmörkuð skýrar með áherslu á að vernda innstæður almennings.
Áfram er unnið að því að styrkja nauðsynlegt öryggisnet um fjármálamarkaði og fjölga úrræðum opinberra eftirlitsaðila og stjórnvalda til þess að grípa tímanlega inn þegar þörf krefur. Á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins er nú unnið að innleiðingu nýs Evrópuregluverks um skilameðferð fjármálafyrirtækja sem gefur stjórnvöldum heimildir til inngripa í rekstur slíkra fyrirtækja og auðveldar þeim að koma innstæðum almennings í skjól ef aðstæður krefjast. Einnig er unnið að innleiðingu nýrra Evrópureglna um innstæðutryggingar sem munu styðja við regluverk um skilameðferð.“
Gefin út samhliða neyðarlögunum
Þegar neyðarlögin voru sett haustið 2008 voru innstæður gerðar að forgangskröfum í slitabú þeirra banka sem féllu í kjölfarið, og lögin náðu til. Samhliða gaf ríkisstjórn Íslands út yfirlýsingu um að allar innstæður á Íslandi væru tryggðar og á grundvelli þeirrar yfirlýsingar voru innlendar innstæður færðar með handafli inn í nýja banka sem stofnaðir voru á grunni hinna föllnu.
Í lok síðasta árs voru innstæður um 65 prósent af heildarfjármögnun íslenska bankakerfisins og bankakerfið þar með rekið á ábyrgð skattborgaranna í ljósi fyrri yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um ábyrgð á öllum innlendum innstæðum. Yfirlýsingin hefur þó aldrei haft neitt lagalegt gildi, heldur byggði á því að stjórnvöld höfðu sýnt það í verki að þau myndu tryggja innstæður ef á það myndi reyna.
Undanþága Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna ábyrgðarinnar rann út fyrir 20 mánuðum og hún hefur þar með óheimil samkvæmt reglum Evrópska efnahagssvæðisins (EES), sem Ísland er aðili að, síðan þá. Alls eru innstæðurnar sem ábyrgðin nær til meira en 1.000 milljarðar króna.
Samkvæmt heimild sem ESA veitti fyrir ábyrgðinni var hún bundin því að íslensk stjórnvöld hefðu þurft að draga hana til baka eins fljótt og auðið er. ESA úrskurðaði síðar að ríkisábyrgðin væri heimild til ársloka 2014. Umrædd heimild fyrir ríkisábyrgð á innstæðum var hvorki framlengd né endurnýjuð síðan. Í ríkisreikningi íslenska ríkisins fyrir árið 2015, og í greinargerð með fjárlagafrumvarpi 2016, kom hins vegar fram að ríkið taldi ábyrgðina vera í fullu gildi. Nú hefur hún verið felld úr gildi.
Í dag á ríkið Landsbankann nánast að öllu leyti, allt hlutafé í Íslandsbanka og 13 prósent hlut í Arion banka. Ríkið er eigandi að um 80 prósent af allri grunn fjármálaþjónustu landsins.