Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að setja á fót starfshóp sem á að móta framtíðarsýn fyrir svæðið frá Markarfljóti að Öræfum á Suðurlandi, og gera tillögur sem eru til þess fallnar að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á grunnþjónustu og vaxtargreinar í atvinnulífinu.
Hópurinn er skipaður að tillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra, sem er þingmaður í kjördæminu. Hann skipar formann hópsins en aðrir fulltrúar í honum verða skipaðir samkvæmt tilnefningum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Byggðastofnun, Samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi og Háskólafélagi Suðurlands. Hópurinn á að hafa samráð við sveitarfélögin á svæðinu.
Þetta er í þriðja skipti sem ríkisstjórnin hefur skipað nefndir af þessu tagi, en fyrst var skipuð svokölluð landshlutanefnd fyrir Norðurland vestra og svo nefnd um samfélags- og atvinnuþróun á Vestfjörðum.
Nefndin um Vestfirði hefur ekki skilað tillögum sínum en ríkisstjórnin ákvað í lok síðasta árs að „styrkja innviði, atvinnulíf og samfélag á Norðurlandi vestra með margvíslegum aðgerðum,“ samkvæmt tillögum nefndarinnar þar.
Þessi aðferðafræði hefur verið gagnrýnd, að taka fyrir sérstaka landshluta með þessum hætti, ekki síst þar sem í gildi eru sóknaráætlanir fyrir alla landshluta, sem Sigurður Ingi og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra skrifuðu undir í fyrra. Sóknaráætlanirnar eru í gildi til ársins 2019. Markmiðið með sóknaráætlunum var að færa aukna ábyrgð á útdeilingu fjármagns til landshlutasamtaka sveitarfélaga og „einfalda framlög til einstakra landshluta, gera þau gegnsærri og láta þau í auknum mæli taka mið af hlutlægum mælikvörðum varðandi stöðu svæðisins.“
Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða, sagði eftir að ákveðið var að ráðast í verkefnin samkvæmt Norðvesturnefndinni að stefna stjórnvalda væri ekki skýr. „Maður sér ekki alveg hvaða aðferðafræði stjórnvöld ætla að beita í byggðamálum, er það með svona beinum, miðstýrðum aðgerðum eða ætla menn að efla landsvæðin í að taka ákvarðanir á eigin forsendum og fylgja því eftir,“ sagði hann við RÚV. Annars staðar á landsbyggðinni væri unnið eftir sóknaráætlunum og landshlutasamtök sveitarfélaga hefðu lagt áherslu á að sú vinna yrði efld, en það hefur ekki verið gert. Vinna eins og í norðvesturnefndinni væri mun miðstýrðari heldur en sóknaráætlanirnar.
Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, segir að það hafi þótt ágæt aðferð að nálgast málin með þessum hætti, að tekin séu fyrir ákveðin svæði.