Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ætlar að hætta í stjórnmálum að loknu þessu kjörtímabili. Þetta tilkynnti hún á Facebook-síðu sinni nú fyrir skömmu. „Ég læt þessu hér með lokið og kveð stjórnmálin að loknu þessu kjörtímabili,“ skrifar hún meðal annars.
Ragnheiður Elín beið ósigur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í gær og endaði í fjórða sæti. Hún hafði leitt flokkinn í kjördæminu í síðustu tveimur alþingiskosningum og sóttist eftir því að gera það áfram. Páll Magnússon fjölmiðlamaður og fyrrverandi útvarpsstjóri bar sigur úr býtum og mun leiða flokkinn í komandi kosningum. Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason, þingmenn flokksins, lentu í næstu sætum þar fyrir neðan, en Ragnheiður Elín og Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður lentu í fjórða og fimmta sæti.
„Stjórnmálin hafa verið minn starfsvettvangur í tæpa tvo áratugi. Ég var aðstoðarmaður ráðherra í níu ár í þremur ráðuneytum, hef verið þingmaður í tæp tíu ár bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, verið þingflokksformaður og ráðherra. Ég hef tekið þátt í að skrifa söguna og verið í forystu í stjórnmálum á gríðarlega miklum umbrotatímum í sögu þjóðarinnar. Það hefur verið stórkostlegt að vinna við það að bæta samfélagið, sjá hugmyndir verða að veruleika,“ skrifar Ragnheiður Elín.
Hún hafi líka skrifað söguna innan Sjálfstæðisflokksins, verið fyrsta konan til þess að leiða framboðslista í gegnum tvennar kosningar og fyrsta konan úr landsbyggðarkjördæmi til að verða ráðherra fyrir flokkinn.
„Þessa reynslu mína og þekkingu langaði mig að nýta áfram í þágu hugsjóna Sjálfstæðisflokkins og hagsmuna Suðurkjördæmis og landsins alls. Þess vegna bauð ég mig fram til þess að leiða framboðslistann í þriðja sinn.“ Hún hafi tekið þátt í fjórum prófkjörum og þrisvar fagnað sigri. „Með sama hætti og ég hef fagnað þeim skilaboðum sem í sigrunum hafa falist meðtek ég skilaboðin sem niðurstaða gærdagsins gefur til kynna.“
Hún óskaði nýjum oddvita, Páli Magnússyni, til hamingju með sigurinn og þakkaði stuðningsmönnum sínum fyrir.